Verðlagsmál

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 12:52:50 (7613)

2002-04-17 12:52:50# 127. lþ. 119.95 fundur 508#B verðlagsmál# (umræður utan dagskrár), KLM
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[12:52]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Það er rétt að rifja aðeins upp þróun gengismála á síðasta ári. Þegar það er skoðað skortir menn orð til að lýsa þeirri þróun. Eigum við að rifja þetta aðeins upp?

Í janúar 2001 var gengisvísitalan 121 stig, fór í 151 stig í lok nóvember. Í janúar kostaði bandarískur dollar 83 kr. en fór í nóvember í 111 kr., evran í 80 kr. og fór í 97 kr. Herra forseti. Þetta er 30% gengisfelling á einu ári. Auðvitað er það svo að hjá þjóð sem er jafnháð innflutningi og við erum, þá fór þessi gengisfelling þráðbeint út í verðlagið og það er það sem magnaði upp hina miklu verðbólgu sem verið hefur í landinu sem allur almenningur er nú að blæða fyrir í háu verðlagi og stórhækkuðum skuldum almennings sem síðan er að kikna undan mikilli greiðslubyrði lána sinna, að ekki sé talað um okurvextina sem eru í landinu. Að sjálfsögðu hefur þetta komið sjávarútvegsfyrirtækjum og öðrum útflutningsfyrirtækjum til góða, enda læðist það að mönnum að nokkrir aðilar geti stjórnað þróun gengismála og jafnvel tekið gjaldmiðilinn í gíslingu ef svo má að orði komast.

Hæstv. ríkisstjórn hélt ákaflega illa á efnahagsmálum á seinni hluta síðasta árs og þess vegna tók forusta Alþýðusambandsins sig til og tók í raun og veru stjórn efnahagsmála í sínar hendur. Ríkisstjórnin kveikti verðbólgubál með aðgerðaleysi sínu á sumum sviðum og vitlausum aðgerðum á öðrum. Það er forusta Alþýðusambandsins sem hefur farið um landið eins og slökkvilið, rætt við forustumenn fyrirtækja og sveitarfélaga og dregið úr verðbólgubálinu. Þeir hafa líka verið í starfi nokkurs konar forvarnafulltrúa.

Að hlusta svo á hæstv. ráðherra, forsrh. og fjmrh., koma hér og ætla að eigna sér það sem gert hefur verið í þessum málum, þá kemur upp í huga minn gamall íslenskur málsháttur sem lýsir best hæstv. ríkisstjórn nú um þessar mundir: ,,Margur elur dramb sitt á annarra svita.``