Verðlagsmál

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 12:54:58 (7614)

2002-04-17 12:54:58# 127. lþ. 119.95 fundur 508#B verðlagsmál# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[12:54]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég skal fúslega játa að ég hafði efasemdir um það og lýsti þeim á sínum tíma að raunhæft markmið væri að ná þessum verðlagsviðmiðunum inn fyrir rauðu strikin og ég held að allir viti að það hlaut að verða mjög tæpt. Það er auðvitað fagnaðarefni ef þetta tekst. Það skapar þá fyrir sitt leyti skilyrði til að glíma áfram við vandann. En það væri hins vegar mikið óraunsæi og óskhyggja að reikna með því að hann væri þar með gufaður upp um aldur og ævi. Undirliggjandi er jafnvægisleysi í íslenska hagkerfinu og við erum enn að súpa seyðið af hagstjórnarmistökum sem sannanlega voru gerð þegar þenslunni var hleypt allt of mikið úr böndunum.

Það sem er líka alvarlegt, herra forseti, og við skulum ekki gleyma, er að staðan er að því leyti breytt að skuldsetning þjóðarbúsins, atvinnulífs og heimila er meiri en nokkru sinni fyrr og það setur öllum aðgerðum í efnahagslífi og hagstjórn þröngar skorður, en síðast en ekki síst, herra forseti, skiptir framtíðin að sjálfsögðu mestu máli. Áhyggjur manna eru af því að hér kunni að vera um mjög tímabundinn árangur að ræða þar sem menn taki í raun og veru þátt í því átaki og hafi úthald til þess svo nokkrum mánuðum nemur. Við eigum eftir að sjá undirliggjandi hluti koma upp úr kafinu á haustmánuðum þannig að sú jákvæða þróun sem núna hefur verið í nokkrum mælingum í röð kann að reynast skammgóður vermir. Það er auðvitað mesta hættan, herra forseti. Að sjálfsögðu er það jákvætt upp á framhaldið líka að tekist hefur að hægja á hlutunum en það skiptir mestu máli þegar frá líður hvort þarna eru að nást tök á þessu varanlega. Það skiptir máli bæði efnahagslífsins vegna en það skiptir líka máli vegna þeirra markmiða að verja kaupmátt og varðveita hann í landinu. Því getur, herra forseti, að mínu mati enginn nema framtíðin svarað hvernig þetta kemur til með að líta út þegar kemur fram á haustið eða inn í næsta vetur.