Verðlagsmál

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 12:59:33 (7616)

2002-04-17 12:59:33# 127. lþ. 119.95 fundur 508#B verðlagsmál# (umræður utan dagskrár), Flm. VE
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[12:59]

Vilhjálmur Egilsson:

Virðulegi forseti. Ég tel að mjög æskilegt hafi verið að aðilar vinnumarkaðarins, þ.e. samtök launþega og atvinnurekenda, tóku sig saman um þessa markmiðssetningu og leituðu til ríkisstjórnarinnar um að taka þátt í því átaki að koma verðbólgunni úr þeim farvegi sem hún var í og yfir í þennan lægri farveg. Ástæðan er sú að þegar aðilar vinnumarkaðarins taka þetta frumkvæði, þá er markmiðssetningin þeirra og ábyrgðin að mörgu leyti þeirra líka að þetta náist. Og þetta virkar allt öðruvísi þegar aðilar vinnumarkaðarins taka slíkt frumkvæði heldur en ef ríkisstjórnin kæmi með eitthvert boð eða einhverja stefnu og ætlaði síðan að fara að senda menn út og suður í slíka baráttu. Þess vegna hefur þetta virkað og ríkisstjórnin hefur bakkað þetta átak afar vel upp og þær aðgerðir sem hafa verið gerðar hafa einmitt virkað vegna þess að þetta er liður í átaki sem aðilar vinnumarkaðarins höfðu frumkvæði að.

Varðandi gengið þá held ég að það hafi engin ein breyting á stjórn efnahagsmála haft jafnmikil og jafngóð áhrif fyrir íslenska hagkerfið og nýju lögin um Seðlabanka Íslands og breytingin á peningastefnunni sem í þeirri breytingu fólst.

Gengisbreytingin sem hefur orðið síðan þetta gerðist er algert skólabókardæmi um það hvernig frjálst gengi virkar til að ná jafnvægi í efnahagsmálum. Það sem menn töluðu um fyrir ári sem tifandi tímasprengju, viðskiptahallann, er ekkert vandamál í dag nákvæmlega út af því að gengisbreytingarnar hafa svínvirkað. Ég tel að það sé bjart fram undan í efnahagsmálunum. Ég tel að það sé sífellt viðfangsefni að stjórna efnahagsmálunum. Þess vegna var ég að ræða um það, ég tel að eðlilegt sé að gengisvísitalan verði á bilinu 130--135. Ég tel líka að vinna eigi í því að lækka vexti með því m.a. að stuðla að sameiningu Landsbankans og Búnaðarbankans.