Verðlagsmál

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 13:01:50 (7617)

2002-04-17 13:01:50# 127. lþ. 119.95 fundur 508#B verðlagsmál# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[13:01]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. málshefjanda frumkvæði hans að þessari umræðu og öllum þeim öðrum sem tekið hafa þátt í henni.

Enginn vafi leikur á því að Alþýðusambandið og aðilar vinnumarkaðarins hafa staðið sig afar vel í byrjun þessa árs í þeim verkefnum sem þeir hafa unnið að af miklum krafti, ekki síst forustumenn Alþýðusambands Íslands. En við skulum átta okkur á því út á hvað þetta verkefni gekk. Áður en það verkefni fór af stað sögðu spámenn Seðlabankans að verðbólga mundi fara úr 9,7% frá upphafi til loka síðasta árs, í 3% frá upphafi til loka þessa árs. Því var ljóst að verðbólgan var á hraðri niðurleið algjörlega óháð slíku átaki. En Seðlabankinn sagði jafnframt að hins vegar mundi ekki takast að halda verðbólgunni á fyrri parti ársins undir viðmiðunarmörkum rauðu strikanna. Alþýðusambandið, atvinnurekendur og ríkisstjórnin fóru í verkefni til þess að tryggja það.

En ég fullyrði að það var ekkert gert í þeim efnum sem er í raun tímabundnar aðgerðir sem síðan munu springa lausar. Menn benda á: ,,Var lækkun bensíngjalds ekki tímabundin? Gengur hún ekki til baka?`` Jú, en hvers vegna var hún gerð? Hún var gerð vegna þess að uppi var tímabundin hækkun á bensínverði sem menn ætluðu ekki að láta rugla þessa stöðu. Bensínverð er núna byrjað að ganga til baka vegna þess að menn óttast ekki lengur innrás í eða árás á Írak og það hefur orðið dálítil breyting á viðhorfum manna í fjórða stærsta olíuríki heims, Venesúela. Þess vegna gengur þetta til baka og á móti kemur að lækkun á bensíngjaldinu mun falla saman við þessi atriði. Það er engin undirliggjandi verðbólga. Ég verð að hryggja hv. þm. Steingrím J. Sigfússon með því að það er engin undirliggjandi verðbólga sem hann getur horft til í haust. (Gripið fram í.) Hún er ekki fyrir hendi. (Gripið fram í.) Hún er ekki fyrir hendi. Það sýna tölurnar og það er afar mikilvægt. Og það er þess vegna sem seðlabankastjórinn segir í dag í viðtali að hann sjái ekki betur en vaxtalækkunarferlið sé hafið. En vextir hér á landi hafa verið hærri en til að mynda í Evrópulöndunum af því að þar er atvinnuleysi á bilinu 10--15%.