Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 13:31:32 (7618)

2002-04-17 13:31:32# 127. lþ. 119.96 fundur 513#B Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins# (umræður utan dagskrár), Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[13:31]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er fyrir neðan allar hellur og bæði ómanneskjulegt og óskynsamlegt að hafa Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins í því uppnámi sem hún hefur verið um langt skeið vegna fjárskorts. Með 30--40 millj. kr. viðbótarframlagi væri hægt að gjörbreyta stöðunni og stytta biðlistana verulega. Starfsemi stöðvarinnar er gríðarlega mikilvæg og það fyrirbyggjandi starf sem þar fer fram tryggir allt í senn, sparnað sem ella kæmi fram í auknum útgjöldum síðar í heilbirgðiskerfinu og síðan það sem mest er um vert, þroskamöguleika fatlaðra einstaklinga. Það er því verið að brjóta rétt á þroskahömluðum börnum sem ekki fá greiningu og meðferð.

Fram hefur komið að löng bið fatlaðra barna eftir greiningu og meðferð geti komið í veg fyrir að þau nái nokkurn tímann þeim þroska sem hægt væri ná með rétti meðferð sem hæfist fyrr. Það er því algert skilningsleysi á því ómetanlega starfi sem fram fer á Greiningarstöðinni að halda henni í svo miklu fjársvelti að vel á annað hundrað börn séu á biðlistum og bið eftir greiningu og þjónustu geti verið eitt til tvö ár. Jafnvel þó Greiningarstöðin fengi þá fjóra starfsmenn til viðbótar sem nú er verið að auglýsa eftir væri starfsmannafjöldinn sá sami og hann var fyrir ári síðan og þá höfðu þegar myndast langir biðlistar eftir þjónustu og m.a. árs bið eftir þjónustu fyrir grunnskólabörn.

Ráðherrann bítur líka höfuðið af skömminni þegar hann reynir að afgreiða langa biðlista með því að lýsa yfir óánægju með afköst starfsmanna. Það er hæstv. ráðherra til ævarandi skammar og auðvitað verður ráðherra að líta til þess að peninga þarf þegar skjólstæðingum hefur fjölgað svo verulega.

Afköst stöðvarinnar hafa aukist gríðarlega og hagræðing og breytt skipulag hefur leitt til þess að kostnaður við hvern einstakling sem fær þjónustu hefur minnkað um 70% á sjö ára tímabili. Staðreyndin er sú sem ráðherra hefur greinilega ekki kynnt sér, að frá árinu 1997 hefur hópur barna með þroskafrávik sem þarf á aðstoð stöðvarinnar að halda tvöfaldast meðan fjöldi starfsfólks hefur staðið nánast í stað. Skjólstæðingum hefur fjölgað um 107% á fimm ára tímabili meðan starfsfólki hefur fjölgað um 8,6%. Skjólstæðingar voru 290 árið 1996 en voru árið 2000 511. Auk þess er afar erfitt að fá starfsfólk að stöðinni, m.a. vegna þess að launakjör eru þar miklu lélegri en á öðrum sambærilegum stofnunum. Má t.d. nefna að laun margra starfsmanna stöðvarinnar eru um 20--30% lægri en annars staðar.

Dæmi eru um að starfsfólk stöðvarinnar hafi hækkað um 50--60 þús. kr. í launum á mánuði með því að fara í sambærileg störf hjá sveitarfélögunum. Þetta er meginskýring þess vanda sem við er að glíma.

Hæstv. ráðherra verður líka að gera sér grein fyrir því að hann sinnir ekki embættisskyldu sinni með því að halda stöðinni í svo miklu fjársvelti að það bæði skerði og komi í veg fyrir að þroskaheft börn fái þjónustu. Það er brot á lögum, bæði lögum um málefni fatlarða og grunnskólalögum.

Úthlutun sveitarfélaganna á fé til grunnskóla vegna fatlaðra barna getur oltið á greiningu stöðvarinnar og það er ekki forsvaranlegt að börn fái ekki þá sérkennslu sem þau eiga rétt á. Stuðningur og sérkennsla sem sum börn með þroskafrávik eiga rétt á er því víða í algjörri óvissu.

Forsenda þjónustu sem fötluð börn eiga rétt á samkvæmt lögum um málefni fatlaðra byggir á því að barnið hafi fengið greiningu hjá Greiningarstöðinni og í sumum tilvikum geta umönnunarbætur foreldra oltið á því að barnið fái greiningu stöðvarinnar.

Vandamálin byrjuðu að hrannast upp við stöðina þegar skipulagsbreytingar voru gerðar árið 1996, en þá jukust verulega tilvísanir til stöðvarinnar ekki síst vegna barna og unglinga á grunnskólaaldri, auk þess sem stöðin fékk aukin verkefni frá Barna- og unglingageðdeildinni vegna einhverfra barna. Aukning hefur líka orðið mikil vegna einhverfutilvika, m.a. vegna þess að greiningartæknin er orðin mun betri og öruggari en áður var.

Í nýlegu svari félmrh. til mín kom fram að einhverfutilvik hafa þrefaldast á stuttum tíma og er reiknað núna með 20 börnum í hverjum árgangi á móti níu til tíu börnum árið 1999. Við þessu þarf að bregðast. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra:

Hverjar eru tillögur ráðherra til að stytta biðlista eftir þjónustu?

Telur ráðherra það verjandi að börn með þroskahömlun þurfi að bíða á annað ár eftir þjónustu og greiningu og að börn á grunnskólaaldri fái ekki sérúrræði í skólakerfinu?

Mun ráðherra styrkja stöðu Greiningarstöðvarinnar sérstaklega vegna vaxandi einhverfutilvika?

Er ráðherrann reiðubúinn að beita sér fyrir úrbótum og samræmingu kjara starfsfólks stöðvarinnar og starfsfólks í sambærilegum störfum til að tryggja að starfsmenn fáist til að starfa við Greiningarstöðina?