Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 13:46:03 (7622)

2002-04-17 13:46:03# 127. lþ. 119.96 fundur 513#B Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[13:46]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Rekstrarvandi Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins bitnar illa á fötluðum börnum og aðstandendum þeirra. Biðtími barna á grunnskólaaldri eftir greiningu er nú á annað ár og stofnunin telur fyrirsjáanlegt að skerða verði þjónustu við fötluð börn á grunnskólaaldri og fjölskyldur þeirra. Með þessu er verið að brjóta skýlausan rétt fatlaðra barna til þjónustu, bæði samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu og lögum um málefni fatlaðra. Þetta alvarlega ástand hefur nú varað í u.þ.b. hálft ár. Svo löng bið eftir greiningu sem raun ber vitni getur komið í veg fyrir að börnin nái nokkurn tímann þeim þroska sem þau gætu náð ef meðferð hæfist fyrr.

Á biðlista Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar eru nú 100 börn og þau og foreldrar þeirra þurfa að búa við þá óvissu að vita ekki hvenær röðin kemur að þeim. Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins hefur þá lagaskyldu að greina fötluð börn í grunnskólum. Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins er eina stofnunin hér á landi sem hefur breiða þverfaglega þekkingu til að greina og aðstoða börn með alvarlegar þroska- og hreyfihamlanir og einhverfu.

Starfsmenn Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar telja að launakjör við stofnunina séu svo léleg að borin von sé að sérfræðingar fáist til starfa. Þeir telja nauðsyn bera til að leiðrétta launakjörin sem fyrst svo unnt verði að leysa vandann.

Ekki vantar fé til að efla utanríkisþjónustu okkar í fjarlægum löndum, en á sama tíma hefur eina sérhæfða stofnunin hér á landi sem greinir þroskafrávik barna verið í fjársvelti í langan tíma.

Frjálslyndi flokkurinn skorar á ríkisstjórnina að grípa nú þegar inn í vanda Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins. Það er ekki um háar fjárhæðir að tefla miðað við það bráðnauðsynlega starf sem er í húfi og miðað við það að verið er að brjóta harkalega á rétti barna með þroskafrávik.