Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 14:00:46 (7629)

2002-04-17 14:00:46# 127. lþ. 119.96 fundur 513#B Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[14:00]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það er óbærilegt ef alvarlega fötluð börn þurfa að bíða lengi eftir þjónustu. Rétt er að hafa í huga að börn upp að tveggja ára aldri eru greind strax og þurfa ekki að bíða.

Það er áformað samkvæmt því sem ég sagði áðan að fyrir 1. júlí í ár verði búið að ákveða hvernig og hvenær þau, alvarlega veiku börnin, fá þjónustu og þá verði það tilkynnt foreldrum þeirra. Þau mega sem sagt eiga von á því að fyrir 1. júlí verði þeim tilkynnt hvenær hægt verði að greina þeirra börn.

Á næsta þingi stefni ég að því að flytja lagafrv. um Greiningar- og ráðgjafarstöðina enda verði þá lokið þeirri fjárhagslegu og faglegu úttekt sem verið er að gera á Greiningarstöðinni. Ég vænti þess að eitthvað muni um það í afköstum stöðvarinnar þegar fjölgað er um þrjá sérfræðinga í fullt starf eins og auglýst hefur verið eftir og tvo í 80% starf hvorn. Það er sem sagt verið að fjölga þarna um fimm, væntanlega á það að geta skipt verulegu máli og þá er orðið fleira starfsfólk á Greiningarstöðinni en nokkurn tíma hefur verið.

Ég vænti mikils af nýrri stjórn og vil taka fram að samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef voru á árinu 2000 meðaldagvinnulaun háskólamenntaðra starfsmanna á Greiningarstöðinni ekki lakari en dagvinnulaun háskólamenntaðra starfsmanna í sambærilegum störfum hjá öðrum ríkisstofnunum. (Gripið fram í.) Ég tek fram að hér er um að ræða dagvinnulaun.