Breyting á reglugerð nr. 68/1996

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 14:59:53 (7641)

2002-04-17 14:59:53# 127. lþ. 121.1 fundur 529. mál: #A breyting á reglugerð nr. 68/1996# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[14:59]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans við þeim spurningum sem ég lagði fram. En eftir að ég lagði fram þessar spurningar til hæstv. ráðherra hér á Alþingi var þessari reglugerð breytt aftur. Áður mátti ætla að hið sama gilti um alla sérfræðinga í öllum greinum varðandi útgáfu vottorða og eitt ætti yfir alla að ganga. En með reglugerð sem birtist í mars fylgdi bréf frá ráðuneytinu. Þar er kynning á þeirri reglugerð og þeirri breytingu sem þar á sér stað. Þar segir að reglugerðin taki til gjaldtöku heilsugæslustöðva fyrir útgáfu læknisvottorða. Þar er um mjög grófa mismunun að ræða sem ég hlaut að minnast á í fyrri ræðu minni og gera aftur að umtalsefni núna þegar eingöngu er um að ræða sérfræðinga sem eru á sviði heilsugæslu sem þessar breytingar eiga að taka til, ekki annarra sérfræðinga.

Ég skil það svo af fréttum sem hafa borist að undanförnu ásamt bréfum sem við hv. þm. höfum fengið frá heilsugæslulæknum, að gífurleg óánægja ríki með þá mismunun sem heilsugæslulæknar búa við miðað við aðrar sérfræðingastéttir. Síðast í morgun er í Morgunblaðinu birt ályktun frá stjórn Félags ungra lækna þar sem þeir beina spurningu til hæstv. ráðherra. Þeir segja:

,,Viljum við þess vegna beina þeirri spurningu til heilbriðgis- og tryggingamálaráðherra hvort það sé stefna hans að leggja niður heilsugæslu í landinu í framtíðinni.``

Þessi spurning er fyrst og fremst sett fram vegna þess að starfsumhverfi heilsugæslulækna verður verra og verra og eins er um svo gífurlega mismunun að ræða í samanburði við aðra sérfræðinga. Við erum áður búin að taka til umræðu mikilvægi heilsugæslunnar og þess að efla heilsugæsluna í landinu. Ég tel að þetta hafi ekki verið spor í þá veru.