Bifreiðakaupastyrkir

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 18:08:23 (7668)

2002-04-17 18:08:23# 127. lþ. 121.6 fundur 703. mál: #A bifreiðakaupastyrkir# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[18:08]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör og fagna þeim. Ég heyri á máli hans að þarna er verið að vinna að því að bæta ástandið til muna. Meðal annars er reyndar verið að tala um að leggja niður lánveitingar til bílakaupa en í tímans rás hafa þær orðið óhagstæðari fötluðum. Bílalánin voru mun hagstæðari fyrir nokkrum árum.

Ég fagna því að skilgreina eigi að nýju hreyfihömlunarákvæðið í þessum reglum því að fólk sem er blint eða með lungnaþembu, hjartveikt eða slíkt og á erfitt með að hreyfa sig hefur fallið undir hreyfihömlunarhugtakið, og ekki alveg með réttu.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra aðeins ítarlegar út í þessar reglur sem á að fara að setja. Í núverandi reglum er tenging við tekjur maka, og ég spyr: Verða þær tengingar aflagðar? Sömuleiðis er eignatenging í gildandi reglum og ég spyr einnig hæstv. ráðherra hvort þær verði teknar út. Fólk fékk ekki styrkinn ef það átti peninga eða verðbréf yfir fjórar millj.

Ég vil sérstaklega lýsa yfir ánægju minni með að það eigi að hækka aldursmörkin því að 70 ára reglan var náttúrlega óviðunandi, og að fara upp í 75 ár aftur finnst mér vera mjög til bóta. Ég get ekki séð annað, herra forseti, en að þarna sé verið að laga heilmikið til. Ég trúi því og treysti að sú regla sem hefur haft það í för með sér að fólk hefur þurft að hætta á vinnumarkaði og íhugi jafnvel hjónaskilnað vegna hennar verði sem sagt aflögð og að hér taki við mun réttlátari reglur. Miðað við það sem hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni hef ég fyllstu ástæðu til bjartsýni.