Úrelt skip í höfnum landsins

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 18:12:47 (7670)

2002-04-17 18:12:47# 127. lþ. 121.7 fundur 588. mál: #A úrelt skip í höfnum landsins# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi LB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[18:12]

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Í sjálfu sér þarf ekki að koma neinum á óvart í ljósi þeirrar þróunar sem hér hefur verið varðandi fiskveiðistjórnarkerfið að sífellt fleiri skip verða verkefnalaus. Það er stöðugt verið að færa aflaheimildir á færri hendur og af þeim sökum verða stöðugt fleiri skip verkefnalaus.

Samkvæmt könnun sem nefnd eða ráð á vegum Hafnasambands sveitarfélaga gerði dagana 4.--7. des. árið 2000 virðist mér sem þá hafi u.þ.b. 160 verkefnalaus skip legið í höfnum landsins, og eru þá ekki talin með flök við strendur. Á þeim tímapunkti var um að ræða 160 skip og ég er ekki í nokkrum minnsta vafa um að þeim hefur fjölgað.

Hér er því að minni hyggju um verulegt vandamál að ræða, og enn verulegra í uppsiglingu, því að þessi skip taka mikið pláss. Menn hafa reiknað að þau verkefnalausu skip sem hér hafa verið nefnd taki u.þ.b. 5 km af viðlegukanti, og það segir sig sjálft að þær miklu fjárfestingar sem liggja í höfnum eru dýrar ef þær nýtast ekki til annars en að verkefnalaus skip liggi þar.

Það er alveg augljóst að ef ráðast á í förgun á þessum skipum er um gríðarlegan kostnað að ræða. Hér er því að minni hyggju verulegt vandamál í uppsiglingu, og kannski löngu orðið að vandamáli. Kannski má taka sem dæmi að menn hafa reynt að reikna út að þessi 160 skip séu u.þ.b. 37 þús. tonn að brúttóþyngd. Því hef ég leyft mér, virðulegi forseti, að beina fsp. til hæstv. umhvrh. um úrelt skip í höfnum landsins, sem hljómar svo:

Hvernig hyggst ráðherra bregðast við sífellt vaxandi fjölda skipa sem úreldast í höfnum landsins og nauðsynlegt er að farga?

Þó að það komi ekki beint fram í þeirri fsp. sem hér er vænti ég þess að hæstv. ráðherra hafi skilið spurninguna þannig að hér sé verið að kalla eftir þeirri stefnu sem menn hyggjast framfylgja í þessu máli. Það er alveg augljóst að í þetta verkefni verður ekkert ráðist í einu vetfangi, það er allt of stórt til þess, þannig að ég leyfi mér að beina þessari fsp. til hæstv. umhvrh.