Úrelt skip í höfnum landsins

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 18:15:53 (7671)

2002-04-17 18:15:53# 127. lþ. 121.7 fundur 588. mál: #A úrelt skip í höfnum landsins# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[18:15]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Hér er spurt: ,,Hvernig hyggst ráðherra bregðast við sífellt vaxandi fjölda skipa sem úreldast í höfnum landsins og nauðsynlegt er að farga?``

Því er til að svara að í mars 1999 skilaði starfshópur um úreldingu, niðurrif og förgun skipa áliti sínu. Starfshópurinn fjallaði um tæknilegar lausnir við förgun skipa, reyndi að meta ástandið og gerði grein fyrir því eins og það var í desember 1998. Þá lágu 87 skip og bátar í reiðileysi við strendur landsins. Víða er að finna í fjörum og höfnum landsins skip sem nauðsynlegt er að fjarlægja, eins og hér hefur komið fram. Í mörgum tilvikum er óvíst um eigendur og í öðrum líklega erfitt að treysta á að þeir séu færir um að leysa mál sín þó að ábyrgðin sé augljóslega þeirra.

Málefni þetta heyrir undir fjögur ráðuneyti, umhvrn., samgrn., sjútvrn. og dómsmrn. Starfshópurinn taldi þörf á því að breyta löggjöf og skapa hagrænan hvata með myndun sjóðs til að fjármagna fyrirliggjandi verkefni.

Nefnd sem fékk það hlutverk að endurskoða lög nr. 32/1986, um varnir gegn mengun sjávar, í desember 1998, var falið að fara yfir tillögur áðurnefnds starfshóps. Gerði hún þá tillögu að tekið yrði á óreiðuskipum í höfnum í tengslum við afgreiðslu frv. til laga um varnir gegn mengun hafs og stranda en það er til umfjöllunar hér á Alþingi. Gerði nefndin tillögu um að ráðherra skyldi í samvinnu við Hollustuvernd ríkisins, Siglingamálastofnun Íslands, hafnarstjóra og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga gera áætlun um hreinsun stranda og hafnasvæða af skipsflökum og skipum í óreiðu, meta kostnað sem af því leiðir og skuli sú áætlun liggja fyrir eigi síðar en 1. janúar 2004.

Í framangreindu frv. er lagt til að hafi skip strandað þannig að því verði ekki komið á flot eða hafi skip legið óhreyft í fjöru í tvö ár beri eiganda þess að fjarlægja það. Telji eigandi slíkt ill- eða ógerlegt er lagt til að honum verði heimilt að leggja fram beiðni til Hollustuverndar ríkisins um að skipið verði óhreyft þar sem það er og að með slíkri beiðni fylgi áhættumat þar sem gerð er grein fyrir umhverfislegum ávinningi ásamt kostnaði við að fjarlægja skipið. Við ákvörðun á slíku yrði Hollustuvernd ríkisins fyrst og fremst að taka tillit til umhverfissjónarmiða, þ.e. hvort betra sé að skipið sé þar sem það hefur strandað í fjöru og hvort það hefur truflandi áhrif á siglingar.

Þetta ákvæði setur ákveðna festu í málið til framtíðar samþykki Alþingi frv. Ég teldi því eðlilegt í framhaldi af samþykkt frv. að gerð yrði áætlun um að taka á fortíðarvanda þessa máls. Rétt væri að fela Hollustuvernd ríkisins eða nýrri Umhverfisstofnun í samráði við hlutaðeigandi stjórnsýslustofnun, sveitarfélög og hagsmunasamtök að gera tillögu að lausn og áætlun um kostnað við hana. Stærsta vandamálið er kostnaðurinn við förgun úreltra skipa en eins og áður hefur komið fram er oft enginn eigandi fyrir hendi eða erfitt að finna hann til að láta hann bera þann kostnað.

Að undanförnu hefur verið talsverð umræða um þessi mál á alþjóðavettvangi, þ.e. um skylduna til að fjarlægja skipsflök sem liggja í fjörum þannig að hér er ekki um að ræða séríslenskt vandamál og nú er unnið að gerð alþjóðasamnings innan Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar þar að lútandi.