Úrelt skip í höfnum landsins

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 18:19:17 (7672)

2002-04-17 18:19:17# 127. lþ. 121.7 fundur 588. mál: #A úrelt skip í höfnum landsins# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi LB
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[18:19]

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja alveg eins og er, því miður, að það svar sem ég fékk var kannski ekki í samræmi við þá spurningu sem hér var borin fram. Einnig vil ég segja að það kemur mér dálítið á óvart, af því að ég hef ekki verið neitt á bólakafi í umhverfismálum, að það skuli vera ég sem upplýsi hæstv. ráðherra um það að í desember árið 2000 hafi 160 skip verið verkefnalaus í höfnum. Það kemur mér dálítið á óvart að í raun og veru er ekki að finna neina stefnu, a.m.k. ekki í orðum hæstv. ráðherra, um að ætlunin sé að reyna að bregðast við þessu ört vaxandi vandamáli. Það eina sem kom fram í svari hæstv. ráðherra var að skipaður hefði verið starfshópur árið 1999 sem hefði haft það hlutverk að leggja fram frv. að því er varðar skip sem hefðu strandað við strendur landsins.

Ég spurði einnig um hið ört vaxandi vandamál sem felst í verkefnalausum skipum í höfnum, vandamál sem við þurfum að takast á við. Ég var kannski fyrst og fremst að kalla eftir því hvaða hugmyndir og hvaða stefnu hæstv. umhvrh. hefði í þessum efnum. Það er alveg augljóst að það vandamál sem er í uppsiglingu er mikið og það er vaxandi. Þess vegna hefði verið gott, og ég hefði talið það í sjálfu sér ofur eðlilegt, að einhver sjónarmið lægju fyrir, einhverjar hugmyndir um það hvernig ætti að bregðast við vandamálinu. Ábyrgðin er vissulega eigendanna en ég veit að sum fyrirtækin hafa orðið gjaldþrota, og sitt lítið af hverju skýrir veru skipanna. Ég hefði viljað heyra frá hæstv. umhvrh. hvaða hugmyndir hún hefur til að takast á við þetta vandamál. Það finnst mér vera lykilatriðið en ekki sagnfræðileg upprifjun á því sem gert hefur verið.