Úrelt skip í höfnum landsins

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 18:21:29 (7673)

2002-04-17 18:21:29# 127. lþ. 121.7 fundur 588. mál: #A úrelt skip í höfnum landsins# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[18:21]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég skil spurninguna og það kemur alveg fram að ... (LB: Fjöldi skipa í höfnum, 160 árið 2000.) Hv. þm. er að spyrja um skip sem úreldast í höfnum og nauðsynlegt er að farga. Eins og ég sagði einmitt í svari mínu tel ég rétt að Hollustuvernd ríkisins eða ný Umhverfisstofnun, sem við stefnum á að setja á laggirnar, í samráði við nokkra hagsmunaaðila sem hér voru taldir upp líka ætti að gera tillögu að lausn og áætlun um kostnað. Stærsta vandamálið við úreldingu þessara skipa er kostnaður, sérstaklega þegar menn finna ekki eigendur að skipunum.

Auðvitað er meginreglan sú að menn eiga að bera ábyrgð á eigum sínum, menn eiga að koma skipum sínum í úreldingu, menn eiga ekki að skilja skip sín eftir í einhverri höfn og labba í burtu. Þeir sem eiga skipin eiga sjálfir að standa undir kostnaði við að úrelda þau. Það eru fyrirtæki sem taka við slíkum skipum. En vandamálið er gagnvart þeim skipum sem eigandi finnst ekki að (Gripið fram í.) og þess vegna kem ég inn á það í svari mínu að ég tel að þeir sem hér voru taldir upp áðan ættu að gera tillögu að lausn og áætlun um kostnað, og þessi kostnaður verður trúlega mjög mikill.

Ég vil fyrst sjá tillögur að lausn áður en ég get eitthvað frekar kveðið upp úr með hvaða leið verður farin. (Gripið fram í: Það er ekkert annað.)