Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 18:23:26 (7674)

2002-04-17 18:23:26# 127. lþ. 121.8 fundur 643. mál: #A sjálfbær þróun í íslensku samfélagi# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KolH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[18:23]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Á umhverfisþingi sem haldið var í janúar 2001 lagði hæstv. umhvrh. fram drög að stefnumörkun um sjálfbæra þróun á nýrri öld, stefnumörkun sem ná átti til 20 ára, skiptist í eina 14 kafla og var fylgt úr hlaði með ávarpi hæstv. ráðherra. Stefnumörkunin var rædd á þinginu og boðið var upp á að fólk fengi að taka þátt í gerð hennar þannig að hún var ekki kynnt sem eitthvert endanlegt plagg eða einhver vinna sem lokið væri heldur þvert á móti vinna sem ætti að fara fram með aðkomu almennings og félagasamtaka. Ég hef spurnir af því að einhver hópur fólks hafi farið af stað og tekið áskorun hæstv. ráðherra, lagt upp í þá leið að grandskoða drög þau sem hæstv. umhvrh. lagði fram, gert við þau ýmsar tillögur, sent inn til ráðuneytisins og eiginlega má segja að sagan endi hér því að í öllu falli veit ég ekki hvað gerst hefur síðan félagasamtök og almenningur sendu til umhvrn. hugmyndir sínar og tillögur til að gera þessa stefnumörkun fullburða.

Það sem ég veit er að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð tók þátt í þessari vinnu, tók henni fagnandi, sendi inn öfluga umsögn og yfirgripsmiklar tillögur um viðbætur og nýja kafla í stefnumörkunina og eitt og annað. Við skrifuðum með þessum tillögum okkar bréf til ráðuneytisins þann 6. júní 2001 þar sem við gerðum grein fyrir sjónarmiðum okkar, bæði jákvæðum því að mjög margt í þessari stefnumörkun horfir til betri vegar, en svo vildum við líka gagnrýna nokkur atriði. Við töldum einsýnt að það yrði affarasælast að stofna einhvers konar starfshóp sem gæti lagt umhvrn. lið í þessari vinnu því að við töldum að slíkur starfshópur gæti verið mjög gjöfull í áframhaldandi vinnu við stefnumörkunina. Við höfum ekki verið kölluð til í slíkan starfshóp en það kann vel að vera að hann sé að störfum engu að síður. Ég spyr í framhaldi af þessu hæstv. ráðherra:

Hvað líður mörkun stefnu um sjálfbæra þróun á nýrri öld sem kynnt var á umhverfisþingi í janúar 2001 og hvernig er háttað þátttöku almennings og félagasamtaka við stefnumörkunina?

Í hve miklum mæli er tekið mið af áætlun um sjálfbær Norðurlönd við stefnumörkunina sem er mjög yfirgripsmikil skýrsla sem Norðurlöndin gáfu út á síðasta ári og Ísland á aðild að?