Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 18:26:34 (7675)

2002-04-17 18:26:34# 127. lþ. 121.8 fundur 643. mál: #A sjálfbær þróun í íslensku samfélagi# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[18:26]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Varðandi þessa fyrirspurn er því til að svara að stefnumörkunin er langt komin. Stefnt er að því að hún verði tilbúin og gefin út fyrir leiðtogafund Sameinuðu þjóðanna í Jóhannesarborg í haust um sjálfbæra þróun.

Á umhverfisþingi var óskað eftir athugasemdum við fyrstu drög að stefnumörkuninni og bárust 20 slíkar athugasemdir. Haustið 2001 tók til starfa samráðsnefnd ráðuneyta um sjálfbæra þróun sem hafði það hlutverk að ljúka gerð stefnumörkunar stjórnvalda um sjálfbæra þróun auk þess að hafa umsjón með framkvæmd norrænnar áætlunar um sjálfbæra þróun og ræða önnur málefni sem tengjast stefnumótun í henni.

Nefndin er undir forustu umhvrn. en auk þess eiga sæti í henni fulltrúar forsrn., fjmrn., iðnrn., landbrn., samgrn. og sjútvrn. Samráðsnefndin hefur unnið að gerð stefnumörkunarinnar síðustu mánuði og hefur þar byggt á fyrstu drögum, athugasemdum sem bárust við þau og samráði við sérfræðinga.

Í byrjun mars voru send út önnur drög að stefnumörkuninni til þeirra sem sendu inn athugasemdir á sínum tíma auk frjálsra félagasamtaka sem aðild eiga að formlegu samráði við umhvrn. Samráðsfundur með þessum aðilum var haldinn 12. apríl sl. þar sem þeim gafst færi á að koma með athugasemdir og ábendingar varðandi stefnumörkunina. Þessi drög hafa einnig verið send hagsmunaaðilum til umsagnar. Auk þess er ráðgert að halda sérstakan samráðsfund með fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Staðardagskrár 21 en hann hefur ekki verið tímasettur.

Varðandi seinni spurninguna um í hve miklum mæli mið er tekið af áætlun um sjálfbær Norðurlönd við stefnumörkunina er því til að svara að samráðsnefndin sem vinnur að stefnumörkun stjórnvalda hefur einnig á sinni könnu umsjón með framkvæmd norrænnar áætlunar um sjálfbæra þróun. Með því er reynt að tryggja að samræmi sé á milli stefnumörkunar á þessu sviði en einnig við breytingar í framtíðinni. Bæði norræna áætlunin og stefnumörkun íslenskra stjórnvalda eru hugsuð sem leiðarvísir til langs tíma sem verður uppfærður og endurbættur í ljósi reynslunnar og breyttra aðstæðna og áherslu stjórnvalda á hverjum tíma.

Tekið hefur verið tillit til áætlunar um sjálfbær Norðurlönd við gerð stefnumörkunarinnar en þó er nokkur munur á áherslum og uppbyggingu þessara áætlana. Þannig eru áherslur norrænu áætlunarinnar að stórum hluta á sviði sameiginlegra verkefna Norðurlandanna, m.a. á vettvangi norrænu ráðherranefndarinnar, auk þess sem lagðar eru línur um það hvernig Norðurlöndin geta beitt sér sameiginlega í fjölþjóðlegu samstarfi. Þannig er einungis hluti framkvæmdarinnar á vegum stjórnvalda heima fyrir í einstökum ríkjum. Stefnumörkun íslenskra stjórnvalda fjallar einnig aðallega um séríslenskar áherslur svo sem varnir gegn mengun hafsins, vernd víðerna, sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins og endurheimt landgæða.