Réttindi Norðurlandabúa

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 18:37:24 (7679)

2002-04-17 18:37:24# 127. lþ. 121.9 fundur 644. mál: #A réttindi Norðurlandabúa# fsp. (til munnl.) frá samstrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[18:37]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Varðandi þá fyrirspurn sem hér um ræðir frá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur er því til að svara að lokaskýrsla Oles Norrbacks um réttindi Norðurlandabúa var afhent norrænu samstarfsráðherrunum í fyrradag, 15. apríl, hér í Reykjavík í tengslum við þemaráðstefnu Norðurlandaráðs. Svein Ludvigsen, formaður samstarfsráðherranna, og sú er hér stendur tóku við skýrslunni fyrir hönd ráðherranefndarinnar.

Fundur í hópi samstarfsráðherranna er hins vegar ekki á dagskrá fyrr en í sumar. Undirbúningur fyrir næstu skref er þó hafinn með það að markmiði að fyrir þann fund verði lögð drög að ráðherranefndartillögu um viðbrögð ráðherranefndarinnar við skýrslunni. Gangi undirbúningurinn samkvæmt áætlun verður tillagan lögð fyrir þing Norðurlandaráðs í haust.

Hvað varðar þá þætti skýrslunnar sem snúa að umbótum í löndunum sýnist mér líklegast að um framkvæmd þeirra verði samráð og að löndin verði samferða eftir því sem tök eru á. Ég geri fastlega ráð fyrir að ráðherranefndartillagan taki einnig til a.m.k. hluta þeirra viðbragða sem lagt er til að löndin grípi til einhliða. Skýrslan inniheldur fjölmargar góðar og gagnlegar tillögur sem nauðsynlegt er að skoða grannt með tilliti til viðbragða. Sumar tillagnanna eru auðframkvæmanlegar og mér finnst eðlilegt að þeim verði hrint í framkvæmd innan þess tímaramma sem lagt er til.

Styrking á starfsemi þjónustusímans ,,Halló Norðurlönd`` er lykilatriði hvað viðbrögðin varðar en Norræna félagið á Íslandi sinnir þeirri starfsemi fyrir hönd ráðherranefndarinnar. Sú starfsemi verður endurmetin á næsta ári og ég bind vonir við að það endurmat verði grundvöllur þess að starfsemi þjónustusímans verði styrkt og aukin.

Það er augljóst að kynning þarf að fara fram innan stjórnsýslunnar á þeim réttindum sem norrænum borgurum hefur verið veitt með samningum milli norrænna ríkja. Sú kynning þarf að vera víðtæk því að ekki nægir að þekking á þessum réttindum sé fyrir hendi í ráðuneytum eingöngu. Hún þarf einnig að vera fyrir hendi hjá starfsmönnum þeirra stofnana sem fara með viðkomandi mál og almenningur leitar til.

Eins er augljóst að upplýsingar fyrir almenning um réttindin þurfa að komast á netið og vera þannig aðgengilegar þeim sem á þurfa að halda. Aðrar tillögur eru þess eðlis að það er of snemmt að segja til um hvort og hvenær unnt verður að fylgja þeim eftir með aðgerðum.

Þetta mál verður á dagskrá samstarfsráðherranna næstu mánuði og ég mun því síðar á árinu geta lagt fram betri upplýsingar um fyrirhuguð viðbrögð. Að lokum, virðulegur forseti, þakka ég fyrirspyrjanda fyrir að sýna þessu mikilvæga máli áhuga.