Kísilvegur

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 18:44:32 (7682)

2002-04-17 18:44:32# 127. lþ. 121.10 fundur 591. mál: #A Kísilvegur# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi KLM (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[18:44]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Herra forseti. Fyrir allnokkru lagði ég fram fsp. til hæstv. samgrh. um Kísilveg. Það er í framhaldi af því að nokkrum sinnum hefur það komið fyrir að vetrarviðhaldi hefur ekki verið sinnt nema fimm daga vikunnar, þ.e. vegurinn hefur ekki verið mokaður nema svo. Síðan hefur töluverður tími liðið og ýmislegt gerst í vegáætlun og öðru slíku.

En ég ætla fyrst að rifja aðeins upp. Kísilvegur, sem er vegur nr. 87, er stofnbraut og liggur frá Mývatnssveit niður á norðausturveg hjá Laxamýri. Vegurinn er alls í kringum 46 km langur. Mývatnssveit og Reykjahverfi má hiklaust skilgreina sem mikið vaxtarsvæði ef vel er á málum haldið og þar með er vegurinn um Hólasand orðinn ein aðalsamgönguæð fyrirtækja í héraðinu, sama hvort um er að ræða ferðaþjónustu eða iðnaðarframleiðslu. Sem dæmi um hve mikið fer um þennan veg má geta þess að heildarframleiðsla Kísiliðjunnar er um 30 þús. tonn og það þýðir að um Kísilveg eru keyrðar 27--30 ferðir á viku, þ.e. 5,4 ferðir á dag, með þessa iðnframleiðslu.

Ef við setjum þetta í annað samhengi má segja að um 1.600 40 feta gámar, bara framleiðsla Kísiliðjunnar, hafi farið um þennan veg á síðasta ári. Ef við skýrum enn betur hve mikill flutningur fer um þennan veg er talið að búið sé að flytja um 767 þús. tonn af kísilgúr um hann til Húsavíkur til útflutnings frá 1998 þegar þetta hófst. Þetta, herra forseti, sýnir hvað þetta er mikilvæg samgöngubót og mikilvægur vegur en sá galli er á gjöf Njarðar að hann er ákaflega slæmur. Það eru ekki nema um 26 km af þessum vegi með slitlagi.

Eins og allir vita er kísilgúrinn notaður í hreinlætisiðnaði, m.a. til síunar í blóðbönkum og í tannkrem svo dæmi séu tekin. Þess vegna er það ótti þeirra sem við þetta starfa að vegurinn geti haft slæm áhrif á kaup á kísilgúr, jafnvel í framtíðinni.

Þess vegna hef leyft mér að leggja fram eftirfarandi fsp. til hæstv. samgrh.:

1. Hver eru áform Vegagerðarinnar um framkvæmdir á Kísilvegi (87) á næstu árum, og hvenær er áætlað að ljúka fullnaðaruppbyggingu þessa vegar með bundnu slitlagi?

2. Eru uppi áform um að auka vetrarþjónustu á þessum vegi, t.d. með snjómokstri alla daga vikunnar?