Kísilvegur

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 18:54:03 (7685)

2002-04-17 18:54:03# 127. lþ. 121.10 fundur 591. mál: #A Kísilvegur# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[18:54]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Vegna þess sem fram kom hjá hv. þm. þá vil ég vekja athygli á því sem hægt er að sjá í skýrslu Vegagerðarinnar að vetrarþjónusta hefur vaxið hröðum skrefum og kostnaður við hana er töluverður. Það er því nauðsynlegt að minnast þess hver sú þróun hefur verið þegar verið er að gagnrýna Vegagerðina fyrir vetrarþjónustuna.

Að hinu leytinu vil ég segja að engar upplýsingar hafa komið til mín um kröfur þeirra sem reka kísilgúrverksmiðjuna um að uppi sé einhver hætta vegna notkunar þessa vegar fyrir þá framleiðslu sem flutt er um veginn til útflutnings, þannig að það kemur mér á óvart ef svo er. En auðvitað þurfum við að hraða uppbyggingu vegakerfisins og það eru margir vegarspottarnir á norðausturhorninu sem ég veit að þingmenn hafa mikinn áhuga á að byrja á framkvæmdum við. Og þá er að velja og hafna og forgangsraða. Að því koma að sjálfsögðu þingmenn hvers kjördæmis þegar það er unnið.

En mér er alveg ljóst að Kísilvegurinn svokallaði er meðal þeirra vega sem þarf að flýta framkvæmdum við en allt verður að hafa sinn tíma.