Bakkaflugvöllur

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 18:59:14 (7687)

2002-04-17 18:59:14# 127. lþ. 121.11 fundur 592. mál: #A Bakkaflugvöllur# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[18:59]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson spyr: ,,Er ráðherra reiðubúinn að beita sér fyrir því að almenningssamgöngur við Bakkaflugvöll verði styrktar sérstaklega?``

Svar mitt er eftirfarandi: Vegagerðin vinnur nú að gerð skipulags varðandi almenningssamgöngur á landi í samræmi við lög nr. 73/2001, um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga á landi, og einnig með hliðsjón af væntanlegri samræmdri samgönguáætlun.

Í skýrslu stýrihóps um samgönguáætlun, sem liggur fyrir, er m.a. gert ráð fyrir að almenningssamgöngum verði haldið uppi til allra þéttbýlisstaða með fleiri en 200 íbúa og að samfélagið tryggi sem flestum íbúum landsins för til og frá höfuðborgarsvæðinu með einhverjum hætti á innan við þremur og hálfri klukkustund. Nánari stefnumótun um þetta efni verður lögð fyrir Alþingi næsta haust.

[19:00]

Á síðasta ári var önnur flugbraut Bakkaflugvallar endurnýjuð og lögð bundnu slitlagi fyrir hátt í 50 millj. kr. og á þeim flugvelli er vakt allan daginn en flugvöllur þessi er einstakur fyrir margra hluta sakir og þjónar megnið af árinu eingöngu Vestmannaeyjum. Á flugvelli þessum lenda aðallega mjög smáar flugvélar sem varla fylgja neinni áætlun og því er erfitt um vik að halda uppi áætlunarferðum á landi í tengslum við þær ferðir. Flugsamgöngur eru sem stendur mjög góðar milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja. Ferjusiglingar eru styrktar milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja og sérleyfi styrkt með Austurleið milli Þorlákshafnar og Reykjavíkur.

Í dag er verulegum fjármunum varið af hálfu ríkisins til þess að styrkja samgöngur milli lands og Eyja. Segja má að rekstur Herjólfs með afborgunum og vöxtum af lánum kosti ríkissjóð milli 300 og 350 millj. kr. á ári. Því má fullyrða að tæplega helmingur alls þess fjár sem ætlað er til að styrkja við almenningssamgöngur af fjárlögum til samgrn. renni til verkefna tengdum Vestmannaeyjum. Þeir fjármunir sem ætlaðir eru til þess að styrkja almenningssamgöngur á landi eru takmarkaðir og verður því að gæta þess að fullnægja nefndum grunnmarkmiðum áður en lengra er gengið. Er því ekki gert ráð fyrir því að almenningssamgöngur við Bakkaflugvöll verði styrktar að svo komnu máli.

Rétt er að geta þess í því sambandi að ég hef tekið ákvörðun um að skipa sérstakan starfshóp og hef óskað eftir tilnefningum í hann en sá starfshópur á að fjalla um samgöngur til Vestmannaeyja með þarfir atvinnulífsins, íbúa og ferðaþjónustunnar í huga. Ég hef fengið tilnefningar í þennan starfshóp og vil geta þess sérstaklega við þessa umræðu um fyrirspurnina. Frá Siglingastofnun kemur Gísli Viggósson, frá Vegagerðinni Kristín H. Sigurbjörnsdóttir. Flugmálastjórn skipar einnig í þennan starfshóp og þar er Haukur Hauksson. Samtök atvinnulífsins voru beðin að um að tilnefna fulltrúa og hafa tilnefnt Arnar Sigurmundsson. Vestmannaeyjabær hefur tilnefnt Guðjón Hjörleifsson bæjarstjóra, Þróunarfélag Vestmannaeyja og Ferðamálasamtök Vestmannaeyja hafa tilnefnt Sigmar Georgsson. Formaður þessa hóps er Kristján Vigfússon, starfsmaður Siglingastofnunar.

Hlutverk þessa starfshóps er m.a. að gera úttekt á hinum ýmsu kostum sem mögulegir eru til flugs og siglinga milli lands og Eyja í samanburði við þá þjónustu sem boðið er upp á í dag og gera frumrekstraráætlanir fyrir nýja kosti sem vætnanlega verða taldir sem raunhæfir kostir til þess að þjóna Vestmannaeyjum sem eiga svo mjög undir því að samgöngur bæði á sjó og með flugi séu sem bestar. Ég tel einsýnt að hópurinn muni fara yfir og gera tillögur um úrbætur bæði hvað varðar flugið, flug frá Reykjavík til Vestmannaeyja, flug um Bakkaflugvöll til og frá Vestmannaeyjum og einnig að sjálfsögðu hvað varðar framtíðarþjónustu með siglingum. Ég vænti mikils af störfum þessa hóps og hann mun að sjálfsögðu m.a. fara yfir þá styrki sem veittir eru vegna samgangna við Vestmannaeyjar.