Gildi lands norðan Vatnajökuls fyrir náttúruvernd og þjóðgarð

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 19:14:10 (7693)

2002-04-17 19:14:10# 127. lþ. 121.21 fundur 712. mál: #A gildi lands norðan Vatnajökuls fyrir náttúruvernd og þjóðgarð# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi KolH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[19:14]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Hér hefur kannski einhver ruglingur orðið á röðinni, ég var undir það búin að leggja fram fyrirspurn til hæstv. menntmrh. þar sem sú fyrirspurn var á undan á dagskránni en ég er engu að síður tilbúin í fyrirspurn mína til hæstv. iðnrh., ef ég mætti fá blaðið með spurningunum, herra forseti.

(Forseti (ÍGP): Sjálfsagt mál.)

Þannig er mál með vexti, herra forseti, að ég hef átt hér orðastað oftar en einu sinni við hæstv. iðnrh. varðandi mat á gildi lands norðan Vatnajökuls fyrir náttúruvernd og þjóðgarð. Sú umræða kom upp oftar en einu sinni í tengslum við Kárahnjúkavirkjun og umræðuna um þá miklu framkvæmd. Einhvern tíma í því ferli miðju þegar mér hafði ekki tekist að fá svör frá hæstv. ráðherra við spurningum sem ég hafði lagt fyrir hana, þá lagði ég fram á sérstöku þingskjali eftirfarandi spurningar:

1. Hvernig verður farið með mat það sem umsjónarnefnd á vegum Rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma skilaði iðnaðarráðuneyti í október 2001, um gildi lands norðan Vatnajökuls fyrir náttúruvernd og þjóðgarð?

2. Er fyrirhuguð sérstök kynning á skýrslu nefndarinnar eða útgáfa hennar og tengdra gagna?

Rétt er að það komi fram hér, herra forseti, að ég hef nú aflað mér þessarar skýrslu sjálf sem er afar yfirgripsmikil og afar merkt plagg sem þegar í það var efnt var gert ráð fyrir að lægi frammi til skoðunar á sama tíma og mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar, sem var sumarið 2001. Það fór nú svo sannarlega ekki svo, því öllu umhverfismati var lokið áður en vinna við skýrsluna var sett í gang. Það fór heldur ekki svo að hægt væri að taka til umfjöllunar eða kynna þessa sérstöku skýrslu áður en Alþingi var búið að taka ákvörðun um að veita hæstv. ráðherra heimild til að láta virkja Jökulsá á Dal og Jökulsá í Fljótsdal. Það er því alveg eðlilegt að hæstv. ráðherra gefi okkur einhver svör um það hvort hún yfir höfuð ætlar að gera eitthvað við þá skýrslu, eða hvort við getum litið svo á að þetta sé vinna sem er á glæ kastað því það kemur auðvitað fram í skýrslunni þegar hún er skoðuð að talið er að verndargildi svæðisins komi til með að minnka umtalsvert verði af áformum stjórnvalda um Kárahnjúkavirkjun.

Þess má líka geta að daginn sem samráðsfundur Landsvirkjunar var haldinn, þann 5. apríl sl., ræddi hæstv. ráðherra um gildi þess að verkefnisstjórn um rammaáætlunina hraðaði störfum sínum þannig að tilbúið yrði bráðabirgðamat fljótlega í þeim efnum. Varðandi allt þetta mat sem verkefnisstjórnin er að vinna er eðlilegt að við fáum að heyra betur af því, hvenær það klárist og hvað hæstv. ráðherra hyggst gera við það?