Gildi lands norðan Vatnajökuls fyrir náttúruvernd og þjóðgarð

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 19:21:50 (7695)

2002-04-17 19:21:50# 127. lþ. 121.21 fundur 712. mál: #A gildi lands norðan Vatnajökuls fyrir náttúruvernd og þjóðgarð# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[19:21]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Það voru ekki eingöngu þessi umhverfis- og náttúruverndarsamtök sem óskuðu eftir því formlega að ráðuneytið léti þessa vinnu fara fram. Það gerði Vinstri hreyfingin -- grænt framboð einnig með formlegu bréfi og ályktun sem send var umhvrh. Það er rétt að það komi hér fram að mér vitanlega hefur Vinstri hreyfingin -- grænt framboð ekki fengið þessa skýrslu senda þó að flokkurinn hafi óskað þess að skýrsla af þessu tagi yrði lögð fram.

Hitt vil ég líka að komi hér fram, herra forseti, að ég er hér með þingskjal nr. 1414 frá síðasta löggjafarþingi, mál nr. 698, sem er svar hæstv. iðnrh. við fyrirspurn minni um viðbrögð við erindi verkefnisstjórnar rammaáætlunarinnar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Í þessu svari segir hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

,,Umsjónarnefndin er að leggja lokahönd á fyrstu drög skýrslu sinnar um gildi lands norðan Vatnajökuls fyrir náttúruvernd og þjóðgarð. Ætlunin er að kynna þau á fundi verkefnisstjórnar rammaáætlunar. Það fer eftir viðbrögðum verkefnisstjórnar hvenær endanleg skýrsla verður tilbúin. Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun verður skýrsla um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar auglýst á næstunni.`` --- Þetta er undir vor 2001, herra forseti. Svo segir undir lok þessa svars:

,,Skýrslurnar ættu því að geta legið frammi á sama tíma.``

Það er alveg ljóst, maður les það úr þessu svari að ráðherrann hefur á þessum tíma gert ráð fyrir að skýrslurnar, sem ég þurfti mikið að hafa fyrir að fá í iðnrn., lægju frammi á sama tíma og mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar. Það gerðist ekki. Það er auðvitað skammarlegt að ráðherrann hafi ekki lagt þær fram. Hún hefur legið á þessu í ráðuneyti sínu síðan 10. október, daginn sem hún talaði fyrir málinu um virkjun Jökulsár á Dal og Jökulsár í Fljótdal, án þess að segja okkur að skýrslurnar væru þá komnar fram.