Gildi lands norðan Vatnajökuls fyrir náttúruvernd og þjóðgarð

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 19:24:07 (7696)

2002-04-17 19:24:07# 127. lþ. 121.21 fundur 712. mál: #A gildi lands norðan Vatnajökuls fyrir náttúruvernd og þjóðgarð# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[19:24]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Mér virðist hv. þm. ætla að gera aukaatriði að aðalatriði í þessu máli. Aðalatriðið hlýtur að vera að þessi vinna hefur farið fram. Það liggur fyrir skýrsla. Ég kannast bara ekki við það að hv. þm. hafi þurft að hafa mikið fyrir því að fá hana. Hv. þm. hefur haft hana undir höndum í langan tíma og þegar hún lá fyrir var hún að sjálfsögðu send þeim samtökum sem um hana báðu (KolH: Ekki til Vinstri grænna.) og hafi einhver mistök orðið varðandi ákveðna stjórnmálaflokka biðst ég afsökunar á því. En hv. þm. hefur skýrsluna undir höndum. Hún er þingmaður viðkomandi stjórnmálaflokks og það kann að vera að svo hafi verið litið á að þar með væri viðkomandi stjórnmálaflokkur búinn að fá skýrsluna. Í mínum huga er hv. þm. mjög tengd þessum stjórnmálaflokki og stór hluti af honum.

Ef vandamálið er eingöngu að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur ekki fengið skýrsluna senda með formlegum hætti er mjög fljótlegt að ráða bót á því vandamáli.

Eins og ég sagði í svari mínu áðan gefur þarna að líta mikilvægt gagn í sambandi við lokavinnuna, þ.e. þegar 1. áfanga rammaáætlunar verður skilað. Það sem nú er í burðarliðnum er í sjálfu sér bara tilraun til að átta sig á hvernig þessi vinna skilar sér best til þjóðarinnar og þeirra sem koma til með að nýta hana. Þetta er ekki formleg afgreiðsla, sem nú fer fram. Hún verður ekki fyrr en í upphafi næsta árs. Mér finnst að þetta sé allt saman í bærilegu lagi og hv. þingmaður geti verið nokkuð sátt.