Atvinnuleysistryggingasjóður

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 19:34:59 (7699)

2002-04-17 19:34:59# 127. lþ. 121.19 fundur 646. mál: #A Atvinnuleysistryggingasjóður# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[19:34]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég tel að hér hafi verið í stuttu máli reynt að fara yfir þau sjónarmið sem hafa gilt hjá ríkisvaldinu, þ.e. hjá ríkisstjórninni, inni í ráðuneytum varðandi framkvæmd laga um Atvinnuleysistryggingasjóð en ekki þau sjónarmið sem hafa komið upp hjá stjórn sjóðsins. Í máli hæstv. ráðherra kom fram að eðlilegt væri að fjármunir sjóðsins væru í vörslu ríkissjóðs en niðurstaða prófessors Sigurðar Líndals er með öðrum hætti. Hann segir að fyrir það fyrsta sé stjórninni falið að taka ákvarðanir um ávöxtun fjár sjóðsins og hann telur það m.a. vera eina forsendu þeirrar niðurstöðu að hér sé um ,,sjálfstæða stofnun`` að ræða sem heyri hugsanlega þá helst til Alþingis og að breyta þurfi lögum ef um er að ræða að það eigi að geyma fjármuni sjóðsins í vörslu eða þeir skuli vera í vörslu ríkissjóðs.

Það er reyndar niðurstaða Sigurðar Líndals einnig eins og segir hér, með leyfi forseta: ,,Niðurstaðan verður þá sú að við gerð fjárlaga og ríkisreiknings hafi verið teknar ákvarðanir sem standast ekki umfram það sem stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs hefur samþykkt vegna þess að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs fari að fullu með forræði sjóðsins.`` Jafnframt segir í niðurstöðum prófessors Sigurðar Líndals: ,,Flutningur Atvinnuleysistryggingasjóðs úr B-hluta í A-hluta án vitundar stjórnar er ekki í samræmi við lög.``

Heilmiklar ásakanir koma fram í þessari álitsgerð sem Sigurður Líndal hefur unnið og jafnframt var tekin ákvörðun um að reynt yrði að leita sátta milli stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs og stjórnvalda. Og ég ítreka þá spurningu mína: Hefur það verið gert?