Atvinnuleysistryggingasjóður

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 19:37:17 (7700)

2002-04-17 19:37:17# 127. lþ. 121.19 fundur 646. mál: #A Atvinnuleysistryggingasjóður# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[19:37]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Sem svar við þeirri spurningu sem hv. þm. bar fram í lok ræðu sinnar vil ég segja að það hefur verið gert að því leyti til að við leituðum eftir því við ríkissjóð og fengum staðfestingu á að tekjur Atvinnuleysistryggingasjóðs væru sérgreindar, sérstaklega vaxtafærðar og ekki notaðar til annars en á að nota þær.

Benda má á að Atvinnuleysistryggingasjóði er tryggð hlutdeild í tryggingagjaldi til að standa undir kostnaði við starfsemi sína. Óumdeilt er að tryggingagjald er skattur. Fjárreiðulögin gilda jafnt að öðru leyti um fjárreiður sjóðsins eftir því sem við á, m.a. um fjárheimildir, framkvæmd fjárlaga og eftirlit. Einungis var um formbreytingu að ræða. Hún laut að flokkun sjóðsins innan ríkisreiknings. Hún hafði að öðru leyti engin áhrif á lögbundna réttarstöðu hans þegar hann var færður úr A-hluta í B-hluta. Verður ekki annað séð en að staða Atvinnuleysistryggingasjóðs innan A-hluta ríkisreiknings sé í samræmi við gildandi lög enda þótt hann hafi verið skipaður í B-hluta ríkisreiknings samkvæmt eldri lögum.

Með bréfi dagsettu 25. mars sl. sendi Ríkisbókhald sjóðnum uppgjör vegna ársins 2001. Samkvæmt því var óhafin staða atvinnuleysistryggingagjalds 5.441 milljón í byrjun árs en 7.601 milljón í árslok 2001. Vaxtatekjur af inneign sjóðsins námu 623 millj. kr. í ríkiseign. Ég hef enga trú á því að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs hefði ávaxtað hann betur.

Ég tel að núverandi fyrirkomulag sé eðlilegt og rétt og engin lögbrot þarna á ferðinni. Ef einhverjum þykir samt ekki nógu skýrt kveðið á um að svona eigi að fara með sjóðinn, þá er hægt að breyta þeim lögum.