Tilnefning á heimsminjaskrá UNESCO

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 19:40:11 (7701)

2002-04-17 19:40:11# 127. lþ. 121.12 fundur 645. mál: #A tilnefning á heimsminjaskrá UNESCO# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi KolH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[19:40]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Árið 2002 er samkvæmt forskrift Sameinuðu þjóðanna helgað varðveislu menningarverðmæta, og er það vel. Í ljós hefur komið að hæstv. ríkisstjórn er að vinna að varðveislu menningarverðmæta Íslands samkvæmt forskrift Sameinuðu þjóðanna því að í desember sl. gaf menntmrn. út fréttatilkynningu sem byggði á minnisblaði frá þáv. hæstv. menntmrh. Birni Bjarnasyni og hæstv. umhvrh. Siv Friðleifsdóttur en þau höfðu lagt minnisblað fram á ríkisstjórnarfundi sem var samþykkt þar. Minnisblað þetta laut að hugmyndum um að Íslendingar tilnefndu staði inn á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Sannarlega tímabært að slíkt verði gert.

Herra forseti. Fyrir skemmstu kom upp í hendurnar á mér bók mikil og mjög merkileg sem heitir á skandinvaísku ,,Vor nordiske verdens arv`` eða Okkar norræni menningararfur, og ég verð að segja að mér þótti afar leiðinlegt að sjá að bókin sem fjallar um norræna staði á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna hafði eingöngu að geyma staði frá Svíþjóð, Noregi, Danmörku og Finnlandi. Ég held að löngu sé orðið tímabært að Íslendingar fylli þann flokk þjóða sem hafa tilnefnt staði inn á þessa mjög svo merku skrá. Ég held að það gæti orðið Íslandi verulega til framdráttar, t.d. á sviði ferðaþjónustu, því vitað er að staðir sem eru á þeirri skrá eru staða vinsælastir fyrir ferðamenn til að heimsækja.

Í tilefni allra þessara vangaveltna hef ég lagt eftirfarandi fsp. fyrir hæstv. menntmrh.:

1. Hvað líður undirbúningi við tilnefningu Þingvalla og Skaftafells á heimsminjaskrá UNESCO sem ríkisstjórnin samþykkti að hefja 4. desember 2001?

2. Hefur komið til athugunar að vinna að fleiri tilnefningum af Íslands hálfu?

3. Hvernig er háttað samstarfi menntamálaráðuneytis og umhverfisráðuneytis varðandi þetta málefni?

4. Hvenær má vænta niðurstöðu í málinu?