Tilnefning á heimsminjaskrá UNESCO

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 19:46:46 (7703)

2002-04-17 19:46:46# 127. lþ. 121.12 fundur 645. mál: #A tilnefning á heimsminjaskrá UNESCO# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[19:46]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. innilega greinargóð svör. Ég fagna því að málið skuli þó vera á þeim rekspöl sem raun ber vitni að kostnaðar- og verkáætlun skuli líta dagsins ljós að öllum líkindum fyrir lok apríl. Það kemur auðvitað dálítið á óvart að heyra hversu umfangsmikil umsókn af þessu tagi þarf að vera og hversu gífurlega kostnaðarsöm hún er. Sömuleiðis kemur það kannski á óvart að mikið af grunnrannsóknum vanti til að við getum veitt allar þær upplýsingar sem UNESCO gerir kröfu um. Það segir kannski svolítið um það á hvaða stigi við erum í rannsóknunum okkar. Við teljum auðvitað að við höfum staðið okkur sæmilega en það er greinilegt að betur má ef duga skal.

Ég held, herra forseti, að það sé afar mikilvægt að íslensk stjórnvöld haldi áfram vel á spöðunum í þessu máli þó að kostnaður við umsókn af þessu tagi geti hlaupið á einum eða tveimur tugum millj. Ýmislegt er kannski í sölurnar leggjandi fyrir þann ávinning sem mögulega væri af því að komast í heimsminjaskrána.

Það vekur kannski athygli í svari hæstv. ráðherra að enn hafi eingöngu verið settar 500 þús. kr. í undirbúninginn. Það má kannski spyrja hvort það nægi á þessu stigi. Það kann vel að vera, ég þekki ekki þannig til þessarar vinnu. En mér þykir eðlilegt að ég ljúki hér máli mínu með einlægri hvatningu til hæstv. menntmrh. að halda þessu máli vakandi og gera það sem í hans valdi stendur til að íslenskir staðir geti komist inn á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna sem allra fyrst.