Nefndafundir á þingfundartíma

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 19:55:54 (7710)

2002-04-17 19:55:54# 127. lþ. 121.93 fundur 516#B nefndafundir á þingfundartíma# (um fundarstjórn), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[19:55]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég tek undir þá spurningu og í rauninni þá gagnrýni sem fólst í spurningu hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur. Hér lítur út fyrir að halda eigi þingfundi áfram þótt nefndafundir séu að hefjast. Ég get upplýst það hér að sjálf á ég að mæta á nefndafundi, einn klukkan átta og annan klukkan níu.

Þetta er ekki samkvæmt þeirri starfsáætlun sem okkur þingmönnum var afhent þegar við komum til þings í haust. Svo er ekki heldur um þann fund sem nú stendur því hann hófst klukkan hálfellefu í morgun. Málið er nefnilega það, herra forseti, að það er ekki lengur farið eftir starfsáætlun Alþingis. Jafnvel þó að ekki sé verið að fara eftir starfsáætlun Alþingis tek ég undir að það er í hæsta máta óeðlilegt að menn ætli hér einnig að fara að brjóta þá venju sem verið hefur, að menn séu ekki með þingfund og nefndafundi á sama tíma. Þingmenn hafa gjarnan viljað fylgjast með þeim fsp. sem hér eru í gangi, koma inn í þær og taka þátt í umræðunni eftir atvikum. Það er beinlínis verið að brjóta á möguleikum og rétti þingmanna með því að vera með þetta hvort tveggja í gangi á sama tíma.

Eins og ég sagði verð ég sjálf bundin við nefndastörf frá klukkan átta og annar fundur sem ég þarf að vera á hefst klukkan níu. Svo er um fleiri hér. Það eru þrjár nefndir sem eiga t.d. að funda samtímis klukkan átta. Ég fer því fram á það við herra forseta að sami háttur verði hafður á og endranær, og þessum þingfundi slitið. Það hlýtur að vera einfalt að finna tíma fyrir þær fsp. sem út af standa áður en þingfundum verður frestað fyrir vorið. Það getur varla verið meira mál að finna fsp. þingmanna stað heldur en öllum þeim stóru málum sem mér sýnist að ríkisstjórnin leggi ofurkapp á að verði afgreidd.