Þróun matvælaverðs á Íslandi í samanburði við önnur Norðurlönd

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 10:43:00 (7723)

2002-04-18 10:43:00# 127. lþ. 122.95 fundur 521#B þróun matvælaverðs á Íslandi í samanburði við önnur Norðurlönd# (umræður utan dagskrár), Flm. RG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[10:43]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég hef fengið athyglisverð svör frá ráðherra Hagstofu Íslands um þróun matvælaverðs á Íslandi samanborið við Norðurlönd. Það blasir við að á Íslandi er matvara mjög dýr miðað við Norðurlöndin. Næst okkur í samanburðinum kemur Noregur. Í samanburðinum sker sérstaklega í augu þróun grænmetisverðs undangenginn áratug en hækkun grænmetisvísitölunnar á tímabilinu er tæp 46% á Íslandi, 37% í Noregi en fer niður í mínus 6,7% í Finnlandi. Sömu sögu er að segja um landbúnaðarafurðir, þ.e. kjöt, mjólk, osta, egg, grænmeti, kartöflur o.s.frv., helstu vörurnar í ísskápnum á hverjum heimili. Þar liggjum við langhæst í samanburðinum.

Nú er þinginu að ljúka en í framhaldi af þessu svari liggur beinast við að óska úttektar á því hvernig matvælaverð er hér í samanburði við hin löndin og fá samanburð á útgjöldum heimilanna.

Gjörbreytt verðlag á mat í Finnlandi kallar fram spurningar en Finnar gengu í Evrópusambandið 1995. Svipaða sögu er að segja um Svíþjóð. Í þessum löndum er matvælaverð óbreytt í dag frá því sem var árið 1990. Það hækkar smávegis fyrri hluta tímabilsins en byrjar að lækka aftur um miðjan áratuginn eftir að löndin gerast aðilar að Evrópusambandinu. Hér á Íslandi er hins vegar bein lína upp á við í verðlagi matvöru allan áratuginn. Skortur á samkeppni og samþjöppun á matvælamarkaði hefur greinilega mikil áhrif á verðmyndunina hérlendis. Við erum ágætlega samkeppnishæf í verði á pakka- og dósamat sem er mest innflutt vara en það vegur ekki þungt því að 85% af veltu matvöruverslana eru innlendar vörur. Tollaverndin gefur aðeins 3% innflutningskvóta af markaði. Út á þennan kvóta eru stundum fluttir inn ostar, stundum kalkúnn, stundum lundir, stundum kjúklingar, aðeins þetta takmarkaða magn. Þeir sem bjóðast til að greiða hæstu tolla fá að flytja inn.

Hérlendis hefur fjölskyldubúahugmyndafræði ráðið í landbúnaði. Smæð búa á e.t.v. rætur í smæð þjóðar og innflutningshöft eru til stuðnings þessari framleiðslu. Þau gilda jafnframt um kjúklinga sem ræktaðir eru með stórbúaformi. Bæði varðandi kjúklinga- og svínarækt gildir innflutningsverndin.

Á Íslandi hafa innflutningshöft oft verið notuð til að vernda framleiðslu og stýra þannig neyslu. Einu sinni var bannað að flytja inn stóla en nú þarf iðnaðurinn að keppa við innflutta vöru. Innlendar matvörur eru eins og fyrr segir 85% af neyslu okkar. Óhófleg samþjöppun á smásölumarkaði birtist okkur í því að tvær verslanakeðjur eru með 67% allrar smásölu á matvælum. Slík fákeppni hefur afdrifaríkar afleiðingar.

Þegar Samkeppnisstofnun tók út álagningu á árunum 1996--2000 kom í ljós að vara hækkaði í verslunum þótt verð frá birgjum stæði í stað. Þannig hækkaði brauð, nautakjöt, lambakjöt og egg t.d. um 14--35% meðan sáralítil hækkun varð á þessari vöru frá framleiðendum og því alveg ljóst að samþjöppun og skortur á samkeppni valda stórauknum kostnaði fyrir neytendur.

Til viðbótar koma mun hærri vextir hér en í nágrannalöndunum sem auðvitað hefur áhrif á samkeppnisstöðu fyrirtækja og framleiðenda. Umræða um aukinn vaxtamun og áhrif hans á stöðu íslenskra fyrirtækja ef önnur Evrópulönd taka upp evruna vekur líka ugg.

Kaupmáttur hér er um það bil 20--25% hærri en fyrir fimm árum. Fyrri hluta tímabilsins sem hér um ræðir var hann hins vegar alveg flatur. Kaupmáttaraukning í Danmörku hefur verið svipuð og hér en eins og fram hefur komið í samanburðinum er þróun matvælaverðs miklu hagstæðari þar sem þýðir að Danir hafa þá meira til ráðstöfunar til annarra nota.

Það er mikilvægt að fá fókus á þessi mál. Þess vegna er stofnað til þessarar umræðu í kjölfar þeirra upplýsinga sem fram hafa komið og skýringa leitað hjá hæstv. forsrh. Er skýringuna að finna í ESB-aðildinni? Noregur, eins og við, stendur utan Evrópusambandsins meðan Danmörk, Svíþjóð og Finnland eru aðilar að sambandinu. Það er ekki sjálfgefið að ESB-aðildin ein og sér geti breytt samkeppnisumhverfinu en meginlínan í Evrópusambandinu er aukið frelsi í viðskiptum, afnám hafta, stærri markaðir og beingreiðslur. Það er skylda stjórnvalda að svara því hvað það er í uppbyggingu og umhverfi matvælaverðs hjá okkur sem er öðruvísi en hjá hinum löndunum því við stöndum frammi fyrir því að breytingar á heimsmarkaðsverði ná ekki hingað til okkar.