Þróun matvælaverðs á Íslandi í samanburði við önnur Norðurlönd

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 10:58:20 (7727)

2002-04-18 10:58:20# 127. lþ. 122.95 fundur 521#B þróun matvælaverðs á Íslandi í samanburði við önnur Norðurlönd# (umræður utan dagskrár), BH
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[10:58]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Svörin við fyrirspurnum hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur um samanburð á matvælaverði á Norðurlöndunum hefur vakið athygli mun víðar en hér á landi enda eru niðurstöðurnar sláandi fyrir þau ríki sem standa utan ESB, Noreg og Ísland. Eitt víðlesnasta dagblað Noregs, Aftenposten, vakti athygli á málinu og hið sama gerðu helstu dagblöð Danmerkur því svörin þóttu tíðindum sæta.

Hæstv. forsrh. vill ekki draga of víðtækar ályktanir af þessum tölum og tengslum þeirra við Evrópusambandsaðild. Ég get að mörgu leyti tekið undir það enda gerði hv. þm. það ekki heldur í framsögu sinni. Hún velti einungis vöngum yfir þessum tölum og hvort Evrópusambandsaðild gæti haft eitthvað að segja þannig að ég held að enginn hafi í þessari umræðu fullyrt neitt um tengsl þessara talna við Evrópusambandsaðild. Þær vekja okkur eigi að síður til umhugsunar, herra forseti, um áhrif Evrópusambandsaðildar ef til hennar kæmi því þær varða beinlínis fjármál heimilanna og lífskjörin í landinu.

Möguleg aðild að Evrópusambandinu getur líka haft grundvallarþýðingu fyrir starfsumhverfi og möguleika fyrirtækjanna en við Íslendingar sem bjuggum lengi við háa verðbólgu og óstöðugt efnahagslíf óttumst fátt meira en að slíkir hlutir endurtaki sig og því hefur stöðugleikaumræðan veigamiklu hlutverki að gegna í afstöðu fólks til mögulegrar Evrópusambandsaðildar.

Upptaka evru t.d. mundi leiða til þess að vextir yrðu svipaðir og á evrusvæðinu. Þjóðhagsstofnun hefur áætlað að við upptöku evru á Íslandi kunni raunvaxtastig að lækka um 1,5--2% sem mundi á ársgrundvelli valda lækkun vaxtagreiðslna um 15 milljarða kr. eða svo. Af því féllu 2/3 hlutar til heimilanna, þ.e. um 10 milljarðar.

Herra forseti. Við þurfum að velta því fyrir okkur hvort heimilin og fyrirtækin á Íslandi þoli til lengdar þá skertu samkeppnishæfni sem kann að fylgja því að standa utan Evrópusambandsins og evrunnar.