Þróun matvælaverðs á Íslandi í samanburði við önnur Norðurlönd

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 11:02:53 (7729)

2002-04-18 11:02:53# 127. lþ. 122.95 fundur 521#B þróun matvælaverðs á Íslandi í samanburði við önnur Norðurlönd# (umræður utan dagskrár), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[11:02]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur fyrir að koma inn á verðlagsmál á matvöru í landinu. Ég vil þó árétta að ég held að við séum öll sammála um að hafa íslenskan landbúnað og framleiða það sem hægt er í landinu. Það er okkur öllum mikilvægt en ég held að það sé langt seilst að halda að tenging í evru eða innganga í Evrópusambandið leysi okkar mál vegna þess að ef við fylgjum vínberjaklasa frá Suður-Afríku og norður í Evrópu, hvort sem það er til Íslands eða Danmerkur, þá er verðið miklu hærra á Íslandi þó að mílulengdin sé svipuð.

Þá liggur næst við að skoða innanbúðarmálin, þ.e. flutningsmálin til landsins, verslunina innan lands og dreifinguna hér. Ég held að við eigum að taka þau mál í því samhengi í staðinn fyrir að kasta okkur yfir verðið eins og það birtist hverju sinni. Að því leyti til er ég sammála hæstv. forsrh. að af svona könnun má ekki draga neinar víðtækar ályktanir vegna þess að við erum í þeirri stöðu, kannski eitt Evrópuríkja, að við flytjum inn á heimsmarkaðsverði allan mjölmat t.d. og alla ávexti. Það er sennilega engin þjóð í þeirri stöðu. Þess vegna ættu þeir vöruflokkar alla vega að mælast á lægra eða svipuðu verði og í öðrum löndun. Þeir gera það ekki í öllum tilvikum og þá liggur beinast við að skoða flutningana til landsins, vörudreifinguna og samkeppnisstöðu innan lands.