Málefni Palestínu

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 11:18:43 (7736)

2002-04-18 11:18:43# 127. lþ. 122.96 fundur 522#B málefni Palestínu# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[11:18]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Áður en ég svara spurningunni beint, þá vil ég nefna nokkra þætti.

Undanfarin ár hafa verið greiddir af Íslands hálfu 5 þús. bandaríkjadalir árlega í frjáls framlög til Palestínu-flóttamannaaðstoðarinnar, þ.e. til handa flóttamönnum á hernumdu svæðunum. Þetta framlag var nýverið hækkað upp í 30 þús. dali. Í annan stað ákvað ríkisstjórnin nýlega að greiða 2 millj. kr. til Hjálparstofnunar kirkjunnar vegna mannréttindavaktar í Palestínu. Eins og hv. þm. nefndi voru á sínum tíma veittar 92 millj. kr., á núverandi verðlagi um 105 millj. kr., til uppbyggingar á sjálfsstjórnarsvæðum Palestínumanna á Gaza á Vesturbakkanum. Það var í tengslum við friðarsamkomulag Palestínumanna og Ísraela og dálítið skrýtið að tala um friðarsamkomulag eins og ástandið er. Hluta þessa fjármagns var ráðstafað gegnum Hjálparstofnun kirkjunnar, Rauða kross Íslands og Alþjóðabankann til íslensk-palestínskrar verkfræðistofu, en stærsti hlutinn, 50 millj., fór í að fjármagna byggingu tólf skólastofa í Beit Ulla stúlknaskólanum í Hebron og sex skólastofa annars staðar. Þetta fjármagn var veitt í gegnum Palestínuaðstoð Sameinuðu þjóðanna á sínum tíma.

Norðmenn hafa verið mjög örlátir í þessum efnum, sennilega hlutfallslega örlátastir þjóða. Það helgast að hluta til af forustu þeirra um Óslóar-samkomulagið og þeirri ábyrgð sem þeir báru á því mikla samkomulagi sem núna er auðvitað allt í uppnámi og væntanlega unnið fyrir gýg í bili, þó að vonandi verði hægt að hverfa að því síðar meir.

Ég tek hins vegar undir með þingmanninum. Ég held að við ættum að heita því að þegar aðeins hægist um og hægt verður að gera eitthvað, því það er ekki hægt að koma neinu á framfæri þarna núna --- þetta er allt í hers höndum, í orðsins fyllstu merkingu. En mér finnst eðlilegt að við náum saman um það í þinginu að styrkja þá sem þarna eru hraktir og hjálparlitlir.