Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 11:24:07 (7739)

2002-04-18 11:24:07# 127. lþ. 122.9 fundur 315. mál: #A virðisaukaskattur# (viðauki, niðurfelling gjalda, endurgreiðslur o.fl.) frv. 64/2002, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[11:24]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir brtt. sem hæstv. forseti kynnti á þskj. 1199. Í brtt. er gert ráð fyrir því að undanþáguákvæði í virðisaukaskattslögunum sem hingað til hefur einvörðungu náð til bóka á íslensku nái framvegis til allra bóka, jafnt frumsaminna sem þýddra, á íslensku sem erlendum málum. Breytingin er sú að lagt er til að núverandi undanþáguákvæði verði útvíkkað með þessum hætti þannig að ekki verði framar gerður greinarmunur á því hvort bækur sem hér eru til sölu eru á íslensku eða öðru tungumáli.

Aðdragandi þessa máls er sá að látið hefur verið á það reyna fyrir dómstólum hvort mismunurinn sem hér er á ferðinni standist ákvæði EES-samningsins. Þetta ákvæði í gildandi virðisaukaskattslögum er gamalt og hefur verið talið liður í að stuðla að verndun og stuðningi við íslenska tungu. Í tengslum við áðurnefnt dómsmál var leitað ráðgefandi álits hjá EFTA-dómstólnum sem komst að þeirri niðurstöðu að hér væri um að ræða óleyfilega mismunun á grundvelli tungumáls eða þjóðernis sem ekki samrýmdist EES-samningnum.

Þá er tvennt til ráða, herra forseti, annaðhvort að hækka virðisaukaskattinn á bókum á íslensku eða lækka hann á öðrum bókum. Það er tillagan sem gerð er hér í þessari brtt.

Málið sem ég gat um fyrir dómstólum hefur ekki verið endanlega til lykta leitt en að því er þetta atriði varðar held ég að niðurstaðan sé borðleggjandi. Það verður að samræma þetta og þá er spurningin: Hvenær á að gera það? Niðurstaða okkar í fjmrn. og ríkisstjórn er sú að best sé að gera það strax þannig að breytingin komi sem fyrst til framkvæmda í stað þess að bíða endanlegrar niðurstöðu í málinu sem ég gat um áðan. Þess vegna er lagt til að þessi breyting verði samferða frv. sem hér liggur fyrir í þinginu hvort sem er og að breytingin öðlist gildi líkt og önnur ákvæði þessa lagafrv.

Auðvitað mun þetta hafa í för með sér eitthvert tekjutap fyrir ríkissjóð, jafnvel töluvert. Sala á erlendum bókum hér á landi er umtalsverð, m.a. sala námsbóka í framhaldsskólum og ekki síður á háskólastiginu. Þannig má segja að þessi breyting komi námsmönnum til góða, enda hefur borist ábending um það frá stúdentaráði Háskóla Íslands þar sem óskað er eftir því að þessari breytingu verðið hraðað.

Okkur telst til að hugsanlegt tekjutap á ári við þessa breytingu geti verið allt að 150 millj. kr., sem er auðvitað veruleg fjárhæð. Ég tel eigi að síður óhjákvæmilegt að ráðast í þessa breytingu frekar en að leggja til hækkun á skatti af bókum á íslensku.

Þetta mál, herra forseti, hefur ekki verið rætt við fyrri umræður um þetta frv. Þannig er eðlilegt að hv. efh.- og viðskn. gefi sér tíma til að fara yfir þessa brtt. Ósk mín er einfaldlega sú að málið hljóti afgreiðslu fyrir þinglok og um það vænti ég að geti orðið breið samstaða.

Ég þakka fyrir, herra forseti, að fá að skjótast með þetta mál á dagskrána á þessum fundi vegna þess að það stendur þannig á hjá mér að ég hef ekki aðstöðu til að vera hér næstu tvo dagana.