Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 11:28:53 (7740)

2002-04-18 11:28:53# 127. lþ. 122.9 fundur 315. mál: #A virðisaukaskattur# (viðauki, niðurfelling gjalda, endurgreiðslur o.fl.) frv. 64/2002, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[11:28]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Þetta mál ber að með nokkuð óvanalegum hætti en hv. þm. í þessum þingsal eru ýmsu vanir af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Hér er lögð fram brtt. við 3. umr. lítils frv. um breytingu á lögum um virðisaukaskatt sem efh.- og viðskn. afgreiddi í góðu samkomulagi. Hér við 3. umr. kemur allstór brtt. sem fjmrh. mælir fyrir án þess að nokkur greinargerð fylgi með þessari brtt. sem hefði verið eðlilegt í svo stóru máli. En hæstv. ráðherra hefur nú skýrt þetta mál og tildrög þess og kostnaðinn við þessa breytingu.

Auðvitað er sjálfsagt að skoða þetta mál en það verður að fá eðlilega umfjöllun í efh.- og viðskn. Það hefur komið fram af hálfu hæstv. ráðherra að hann geri ráð fyrir að nefndin fjalli um málið og hún verður auðvitað að taka sinn tíma til þess. Hér er eins og fram hefur komið um töluverðan kostnað að ræða en eins og ráðherrann sagði nýtist þetta til að mynda námsmönnum mjög vel. Hér er brugðist við ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins um mismunandi skattlagningu á bókum.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvenær þetta álit EFTA-dómstólsins kom fram. Málið er mjög seint á ferðinni og hefði verið eðlilegra að fjalla um það þegar efh.- og viðskn. var með virðisaukaskattsfrv. til umfjöllunar. Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra, sem hefur rökstutt það af hverju ríkisstjórnin leggur til að þetta verði gert strax og telur þetta til að mynda mjög brýnt vegna námsmanna: Hvenær er nauðsynlegt að afgreiða þessa breytingu með tilliti til álits EFTA-dómstólsins?

Að öðru leyti er þetta mál sem við munum reyna að greiða fyrir eins og kostur er. Hins vegar er gagnrýnisvert hvernig það ber að.