Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 11:31:41 (7741)

2002-04-18 11:31:41# 127. lþ. 122.9 fundur 315. mál: #A virðisaukaskattur# (viðauki, niðurfelling gjalda, endurgreiðslur o.fl.) frv. 64/2002, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[11:31]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins út af ábendingum hv. þm. þá vildi ég láta koma fram að nokkrar vikur eru síðan álitið barst frá EFTA-dómstólnum, þetta ráðgefandi álit vegna þess dómsmáls sem hér hefur verið höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Það hefur legið fyrir um nokkra hríð og var hér í fréttum á sínum tíma. Hins vegar hefur Alþingi það auðvitað í hendi sér hvenær orðið er við slíku áliti eða ákveðið að fara eftir því. Hugmynd mín var upphaflega sú að bíða með þetta fram á næsta þing og leggja til að málið yrði þá afgreitt hér á hinu háa Alþingi. En að betur athuguðu máli sýnist mér að ekki væri eftir neinu að bíða með að afgreiða þetta mál. Fyrst á annað borð verður nauðsynlegt að gera það, þá er alveg eins gott að gera það strax, en ég tek undir með hv. þm. að eðlilegt er að þingnefndin gefi sér tíma til að skoða málið eins og ég reyndar gat um áður.