Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 11:33:05 (7742)

2002-04-18 11:33:05# 127. lþ. 122.9 fundur 315. mál: #A virðisaukaskattur# (viðauki, niðurfelling gjalda, endurgreiðslur o.fl.) frv. 64/2002, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[11:33]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra um að bregðast verður við þessu áliti EFTA-dómstólsins og ég er sammála þeirri leið sem hæstv. ráðherra leggur til í þessu efni, en hann nefndi að um tvær leiðir hefði verið að ræða, að hækka virðisaukaskattinn á innlendum bókum upp í 24,5% eða lækka hann á erlendum bókum til samræmis við það sem er á íslenskum bókum.

En það sem ég er að gagnrýna er að mikill ósiður er hvernig hæstv. ráðherrar umgangast þingið á lokadögum þess. Hér upplýsir ráðherrann að þetta hafi legið fyrir í nokkrar vikur í ráðuneytinu og á meðan við vorum að fjalla um það mál í efh.- og viðskn. sem hér er verið að gera brtt. um við 3. umr. Það er gagnrýnisvert. Þetta er eins og þegar ríkisstjórnin var með hjá sér í nokkra mánuði það stóra frv. sem við erum með í efh.- og viðskn. um ríkisábyrgð, tvo mánuði að ég held, en ætlar síðan þinginu að afgreiða það á fjórum eða fimm dögum. Með sama hætti þó þetta sé miklu minna mál, þá er þetta mikill ósiður, herra forseti, sem ráðherrar eru að temja sér, því þetta er greinilega alveg óþarfi í þessu máli eins og ráðherrann upplýsir hér. Málið hefur legið fyrir í nokkrar vikur í ráðuneytinu og er fyrst komið með það inn í þing eftir að frv. sem á að gera breytingu við er komið úr nefnd og komið til 3. umr. Það er það sem ég er að gagnrýna, herra forseti.