Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 11:47:47 (7746)

2002-04-18 11:47:47# 127. lþ. 122.9 fundur 315. mál: #A virðisaukaskattur# (viðauki, niðurfelling gjalda, endurgreiðslur o.fl.) frv. 64/2002, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[11:47]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef margoft sagt það hér í þessum ræðustól að ég er mikill fylgismaður þess að við rekum öfluga velferðarþjónustu á Íslandi og að hún sé kostuð af almannafé, skattfé. Ég geri mér grein fyrir því að lækkun á sköttum, sem í þessu tilviki hefði vissulega í för með sér lækkað vöruverð á innfluttum bókum, gæti leitt til aukinna útgjalda á öðrum sviðum, t.d. innan heilbrigðisþjónustunnar, og það kæmi sér illa og miklu verr fyrir launafólk og þá sem eru tekjulitlir að fara þá leið. Ég segi að við eigum að skoða málin í því samhengi.

Þegar vísað er til Evrópusambandsins í þessari umræðu hefur það verið gert á tvennan hátt. Annars vegar er talað um verndun tungunnar, hvaða möguleika við höfum átt innan Evrópusambandsins í því efni, en að öðru leyti hefur verið vísað í krónur og aura. Menn hafa sagt að með inngöngu í Evrópusambandið náum við verðlagi niður.

Ég bendi á að innganga í Evrópusambandið hefði í för með sér stóraukin útgjöld fyrir Íslendinga. Nemur það mörgum milljörðum króna, mörg þúsund millj., sem við greiddum inn í þessa hít umfram það sem út úr henni mundi koma til okkar, og ég er að vekja athygli á þessu samhengi þegar vísað er í krónur og aura.

Þegar hins vegar er vísað í hinn þáttinn, um möguleika okkar til að hafa áhrif, vil ég fara aðra leið og treysta fullveldi þjóðarinnar í stað þess að fara bónbjargarleið inn í skrifræðið í Brussel.