Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 11:51:55 (7748)

2002-04-18 11:51:55# 127. lþ. 122.9 fundur 315. mál: #A virðisaukaskattur# (viðauki, niðurfelling gjalda, endurgreiðslur o.fl.) frv. 64/2002, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[11:51]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er gott til þess að vita að hv. þm. Össur Skarphéðinsson tekur undir þau sjónarmið sem lúta að hagsmunum launafólks innan BSRB, ASÍ og allra samtaka launafólks í landinu.

Við vorum að tala um krónur og aura og það hefur verið reiknað út hvað það muni kosta okkur að ganga inn í Evrópusambandið. Það er að vísu byggt á líkindareikningi en það hefur verið sett fram, m.a. í skýrslu hæstv. utanrrh. Þar kemur fram að við erum að tala um marga milljarða sem Íslendingar yrðu að greiða í hít Evrópusambandsins umfram þá sem út úr þeim sjóðum kæmu.

Hefur hv. þm. Össur Skarphéðinsson gert sér grein fyrir því að með inngöngu í Evrópusambandið mundum við afsala okkur réttinum til að gera viðskiptasamninga við önnur ríki og önnur svæði? Og hefur hann reiknað út hvað það hefði í för með sér í verðlagi á vörum frá ríkjum sem við þegar höfum gert samninga við? Auðvitað þarf að skoða þessi mál öll en hitt stendur upp úr í mínum huga að með inngöngu í Evrópusambandið mundu Íslendingar glata fullveldi sínu, það mundi draga stórlega úr möguleikum okkar til að hafa áhrif á efnahagsmálin, á menningarmálin og á öll okkar mál.