Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 11:57:48 (7750)

2002-04-18 11:57:48# 127. lþ. 122.9 fundur 315. mál: #A virðisaukaskattur# (viðauki, niðurfelling gjalda, endurgreiðslur o.fl.) frv. 64/2002, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[11:57]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég fagna þessu frv. ekki neitt. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að slá skattalegan múr í kringum menningarlega arfleifð okkar eftir því sem kostur er. Ég tel að það ætti að hafa mismunandi skatta, ef kostur væri, á innlendum og erlendum bókum. Ég geri það með sömu rökum og hv. þm. Hjálmar Árnason taldi upp áðan, og ýmsir fleiri á undan honum. Það er æskilegt að reyna að styrkja menningarlega framleiðslu lítillar þjóðar sem verst í vök í flaumi tímans þar sem hún er undir margvíslegu áreiti. Ég tel a.m.k. að svo sé við þessar aðstæður.

Við horfum hins vegar fram á það að við erum aðilar að erlendum samningi sem gerir það að verkum að við eigum ekki annarra kosta völ eftir úrskurð ESA en að breyta lögum okkar, og undir það gengst ég fúslega. Þetta er hluti af því sem hv. þm. Ögmundur Jónasson var að tala um áðan, hann kallaði það að vísu að við hefðum tapað fullveldi, ég kalla þetta að deila fullveldi. Ég kalla það að deila fullveldi með öðrum þjóðum í gegnum alþjóðlega samninga þar sem menn styrkja stöðu þjóða eins og okkar með því að fá margvísleg réttindi í krafti alþjóðlegra samninga en til endurgjalds fallast menn á ákveðnar kvaðir. Þetta er ein af þeim.

Það hefur hins vegar komið fram í þessari umræðu, herra forseti, að ef við værum fullgildir aðilar að Evrópusambandinu gætum við haft þessa mismunandi álagningu, hvað virðisaukaskatt áhrærir, á bókum. Að vísu, herra forseti, er ég almennt þeirrar skoðunar að það eigi að draga úr og hafa sem minnsta skattlagningu á framleiðslu eins og bókum og geisladiskum, og rétt að greina frá því að þegar þetta mál kom til afgreiðslu á sínum tíma í þinginu var ég stjórnarliði í flokki ríkisstjórnar Alþýðuflokks og Sjálfstfl. og ég greiddi atkvæði gegn því að virðisaukaskatturinn yrði 14%. Hvers vegna? Ég vildi að hann yrði 0%. Ég er þeirrar skoðunar, ekki bara með hliðsjón af afdrifum bókaútgáfu í landinu, heldur með hliðsjón af því að ritun bóka er einhver innsti og grónasti hluti af menningu okkar. Bækur og ritun bóka eru ástæðan fyrir því að íslenska þjóðin er til í dag. Bækur og ritun bóka varðveittu tunguna, og tungan er það sem gerir það að verkum að við erum í dag sérstök þjóð. Þess vegna geld ég jafnan varhuga við því ef menn taka upp hverjar þær aðgerðir sem gætu með einhverjum hætti dregið undan henni.

Herra forseti. Hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir dró inn í umræðuna ákaflega merkilegan hlut. Hún benti á að við erum núna að undirgangast þessa kvöð í krafti þess að við erum aðilar að EES-samningnum. Við undirrituðum hann og staðfestum 1993. Það var áður en sú breyting á sáttmála Evrópusambandsins var gerð sem kennd er við Amsterdam. Með þeirri breytingu var hins vegar ýtt undir möguleika þjóða til að lyfta sinni menningarlegu sérstöðu. Ef við hefðum gert samninginn eftir þetta eða ef við værum aðilar að Evrópusambandinu gætum við gert, ég segi ekki hvaðeina, en ákaflega margt sem þessu tengist til að slá skjaldborg um menningarlega arfleifð okkar, t.d. í formi bókaritunar.

Herra forseti. Ég er hins vegar sammála hv. þm. Hjálmari Árnasyni um að þetta er í eðli sínu einfalt frv., það þarfnast ekki mikillar skoðunar. Auðvitað er sjálfsagt að við tökum það til afgreiðslu í efh.- og viðskn. og brjótum það þar til mergjar. Ég tel að við eigum að kveðja til fundar við okkur þá sem véla um bókaútgáfu í landinu og heyra viðhorf þeirra en mér finnst heldur ekkert umhendis, í krafti jafnræðis, að við veltum því fyrir okkur hvort ekki ætti enn fremur að spyrja um afstöðu þeirra sem framleiða og flytja inn annars konar menningarvarning eins og geisladiska.

Ég er líka sammála hæstv. fjmrh. um að úr því sem komið er sé bara rétt að afgreiða þetta sem fyrst. Þetta er ekki mál sem er rétt að láta dankast. ESA hefur fellt úrskurð sinn --- það liggur fyrir --- og við verðum að undirgangast hann. Þá er ég sammála hæstv. ráðherra, við skulum bara afgreiða málið hið fyrsta og gera það á þessu þingi. Ekki stendur á mér eða Samfylkingunni í þeim efnum.