Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 12:02:54 (7751)

2002-04-18 12:02:54# 127. lþ. 122.9 fundur 315. mál: #A virðisaukaskattur# (viðauki, niðurfelling gjalda, endurgreiðslur o.fl.) frv. 64/2002, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[12:02]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson vék að möguleikum okkar til að hafa áhrif innan Evrópusambandsins og sagði að innganga í Evrópusambandið væri til að treysta fullveldi þjóðarinnar. Ég tel að svo sé ekki.

Sú var tíðin að innan Evrópusambandsins höfðu einstök ríki mikinn rétt til áhrifa, m.a. með neitunarvaldi. Sá réttur hefur vikið fyrir meirihlutavaldi innan stjórnunarstofnana Evrópusambandsins. Hvernig er því háttað, stjórnunarkerfi Evrópusambandsins? Þar er valdamest framkvæmdastjórn. Að baki henni er ráðherranefnd. Þar eru núna 87 ráðherrar. Þeir verða 237 eftir stækkun. Hver verða áhrif smæstu ríkjanna? Þau verða 1%.

Til hliðar er síðan þing Evrópusambandsins. Þar sitja núna 626 þingmenn. Eftir stækkun, hver verður áhrifamáttur smæstu ríkjanna? Hann verður um hálft prósent.

Telur hv. þm. það til þess fallið í slíku stjórnunarkerfi að treysta fullveldi Íslendinga með því að afsala okkur valdi til að gera viðskiptasamninga við aðrar þjóðir? Gæti verið að hv. þm. sé farinn að fylgja einangrunarstefnu í stað þess að horfa til heimsins alls eins og við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði leggjum til?