Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 12:04:27 (7752)

2002-04-18 12:04:27# 127. lþ. 122.9 fundur 315. mál: #A virðisaukaskattur# (viðauki, niðurfelling gjalda, endurgreiðslur o.fl.) frv. 64/2002, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[12:04]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Margt er hægt að saka félaga mína í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði um en þetta er í fyrsta skipti sem ég heyri því kastað fram að þeir séu alþjóðasinnar. Það er auðvitað við hæfi að það komi úr þeirra eigin röðum. Það skýtur skökku við þegar hv. þm. Ögmundur Jónasson kallar mig einangrunarsinna. Það er vísast þannig að það eru ekki margir alþjóðlegar sinnaðir í þessum þingsölum en ýmsir þingmenn Samfylkingarinnar. Það stafar af sögulegum og pólitískum rótum okkar.

Herra forseti. Innganga í Evrópusambandið, mun hún draga úr fullveldi okkar? Síður en svo. Farnast smáþjóðum illa innan Evrópusambandsins eða almennt í samfélagi þjóðanna? Nei. Hvers vegna? Þær bera jafnan gæfu til þess að starfa saman. Það hefur verið gerð vísindaleg úttekt á þessu af hálfu íslensks fræðimanns við Háskóla Íslands, Baldurs Þórhallssonar. Hann hefur komist að því að smáþjóðunum vegnar betur. Hvers vegna? Þær læsa saman klónum og berjast harkalega fyrir fáum, einangruðum, mikilvægum hagsmunamálum og hafa yfirleitt komið betur út en stærri þjóðirnar. Ég vísa því þess vegna á bug að smáþjóðirnar séu einangraðar. Þær virðast eiga auðveldar með að ná fram hagsmunum sínum en ýmsar stærri þjóðirnar.

Að því er varðar hið formlega tap á fullveldi þá er rétt að vekja eftirtekt hv. þm. á því að þegar við samþykktum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið var það gert miðað við ákveðna innri gerð Evrópusambandsins þar sem við höfðum möguleika til að koma viðhorfum okkar á framfæri. Breytingar á innviðum Evrópusambandsins, til þess að auka lýðræðislegt vægi innan sambandsins, hafa hins vegar dregið úr þessum möguleikum okkar. Þannig má segja að dag frá degi, hægt en bítandi, séum við að tapa fullveldi sem við sömdum ekki um og vissum ekki af þegar við gengum í Evrópska efnahagssvæðið. Þess vegna segi ég að ef við færum í Evrópusambandið þá mundum við endurheimta þessa möguleika. Rödd okkar mundi heyrast og að því leyti held ég að við mundum styrkja fullveldið með því að gerast aðilar að Evrópusambandinu.