Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 12:08:01 (7754)

2002-04-18 12:08:01# 127. lþ. 122.9 fundur 315. mál: #A virðisaukaskattur# (viðauki, niðurfelling gjalda, endurgreiðslur o.fl.) frv. 64/2002, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[12:08]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ber fulla virðingu fyrir viðhorfum og stefnu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Það vill svo til að ég tel að þeir séu ekki ýkja alþjóðlega sinnaðir. Þeir svara því jafnan með því að segja að Evrópusambandið sé svo eintrjáningslegt að það vilji einangra sig frá umheiminum. Auðvitað vita allir sem þekkja til að þetta er rangt.

Hugtakið ,,þjóðríki`` og skilgreining á því hefur breyst með framvindu tímans eins og allt breytist. Nú er það einfaldlega þannig að heimurinn er miklu flóknari og alþjóðlegu samskiptin meiri. Til þess að tryggja fullveldi ríkja þá er ein aðferðin og e.t.v. besta aðferðin sú að deila því. Þetta höfum við Íslendingar gert í vaxandi mæli á síðustu áratugum.

Þegar við urðum t.d. aðilar að samningi Norðurlandanna um sameiginlegan vinnumarkað afsöluðum við okkur þeim hluta fullveldisins sem fólst í að meina útlendingum frá ákveðnum löndum að koma hingað til Íslands og gerast fullgildir aðilar á vinnumarkaðnum. Sama gerðist með samningi okkar um tvíhliða varnarsamstarf við Bandaríkin. Þar afsöluðum við okkur því sem mikilvægast er í fullveldi, sem eru varnirnar. Það má vera að hv. þm. sé andstæður því en svona gera þjóðir í dag. Þær deila fullveldi sínu til þess að styrkja það