Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 12:11:30 (7756)

2002-04-18 12:11:30# 127. lþ. 122.9 fundur 315. mál: #A virðisaukaskattur# (viðauki, niðurfelling gjalda, endurgreiðslur o.fl.) frv. 64/2002, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[12:11]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir nánast hvert orð sem hv. 1. þm. Norðurl. e. sagði. Það er auðvitað óþolandi ef Íslendingar geta ekki beitt ákveðnum aðgerðum til þess að vernda menningarlega sérstöðu sína, sem aðrar þjóðir innan Evrópu og innan Evrópusambandsins geta hins vegar.

Staðan er hins vegar einfaldlega þannig að þær samkeppnisreglur sem í dag ríkja innan Evrópusambandsins, í kjölfar þeirra breytinga sem gerðar voru á Amsterdam-fundinum, heimila svona mismunandi skattlagningu eins og við erum hér að ræða um. Þær samkeppnisreglur sem við undirgengumst með EES gera það ekki. Þetta var útskýrt hér áðan í ræðu hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur. Þetta er einfaldlega staðreyndin og liggur til grundvallar þeirri skoðun minni að þarna sé enn ein röksemdin fyrir því að við stígum skrefið sem felst í að sækja um og samþykkja aðild að Evrópusambandinu, þetta er eitt af því sem gerir það að verkum að ég tel að það sé ákjósanlegt.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. Halldóri Blöndal að það er óþolandi að ekki skuli hægt að taka mið af þessum breytingum og breyta EES-samningnum. Það vill svo til, herra forseti, að það er einn íslenskur stjórnmálamaður sem virðist sætta sig við þetta. Það er hæstv. forsrh. Hann fór nýlega í heimsókn til kollega síns, Bondeviks í Noregi, og þar urðu þeir ásáttir um að það væru engar tímanlegar nauður sem rækju til þess að menn færu í að uppfæra EES-samninginn fyrr en núverandi stækkun Evrópusambandsins væri frá og staðfestingarferlið búið. Ég er alveg sammála hv. þm. Halldóri Blöndal um að þetta er auðvitað ófært. Það þarf að gera þetta miklu fyrr. Hinu átti ég ekki von á, að hann yrði ósammála forsætisráðherra sínum í þessum efnum.