Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 12:33:57 (7762)

2002-04-18 12:33:57# 127. lþ. 122.9 fundur 315. mál: #A virðisaukaskattur# (viðauki, niðurfelling gjalda, endurgreiðslur o.fl.) frv. 64/2002, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[12:33]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er enginn að láta taka sig á einu eða neinu nema ef vera kynni hæstv. forsrh. Þetta er nú bara þannig, herra forseti, og ég hlýt þá að spyrja hæstv. forsrh. ef það er svo að við getum bara breytt hér lögum eins og okkur sýnist okkur til hagsbóta, af hverju í ósköpunum er þá hæstv. fjmrh. að gera breytingar á íslenskum lögum um virðisaukaskatt í samræmi við það sem EFTA-dómstóllinn segir að honum beri að gera á grundvelli EES-samningsins, þar sem virðisaukaskattþrepið er jafnað á milli innlendra og erlendra bóka? Það er bara þannig, herra forseti. Og í þeim úrskurði EFTA-dómstólsins, sem ég hef reyndar séð og lesið alveg ágætlega, blaðsíðu eitt og alveg til enda, þá segir þar að þetta sé ekki heimilt vegna þess að við byggjum á grundvelli EES-samningsins. Síðan þá hafa verið gerðar breytingar sem heimila að taka tillit til menningarlegrar sérstöðu, m.a. að gerð sé þessi skattalega mismunun með tilliti til menningarlegrar sérstöðu. Við megum ekki gera það vegna þess að við byggjum á EES-samningnum.

Ef þetta er rétt, herra forseti, þá hvet ég hæstv. forsrh. til þess að tala við kollega sinn, hæstv. fjmrh., og láta hann taka út þá brtt. sem hann hefur lagt fyrir þingið og við erum að ræða um vegna þess að hún gengur út á þetta, að honum beri skylda til þess að jafna skattþrepin og hann velur þá leið að jafna þau niður á við, sem ég held að sé alveg rétt af honum að gera í annars erfiðri stöðu, í staðinn fyrir að jafna þau upp á við og hækka virðisaukaskattinn á íslenskar bækur.

Þetta er það sem við erum að ræða um hér, herra forseti. Ef þetta er misskilningur í mér og hæstv. fjmrh. þá held ég að mjög mikilvægt sé að við leiðréttum hann hér og nú.