Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 12:36:53 (7764)

2002-04-18 12:36:53# 127. lþ. 122.9 fundur 315. mál: #A virðisaukaskattur# (viðauki, niðurfelling gjalda, endurgreiðslur o.fl.) frv. 64/2002, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[12:36]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þetta var svolítið skrýtin ræða. Við megum gera það sem við viljum, við ráðum, en við gerum það vegna þess að við gætum lent í mótvægisaðgerðum, ég skildi ræðuna þannig.

Herra forseti. Hver er niðurstaðan? Niðurstaðan er sú að við erum að breyta lögum um virðisaukaskatt í þá veru að jafna þetta hvort sem það er á grundvelli einhverrar klárlega lagalegrar skyldu eða bara vegna alþjóðlegra skuldbindinga sem við teljum okkur vera bundin af. Að sjálfsögðu værum við ekkert að því, herra forseti, nema við teldum að við þyrftum að gera það á grundvelli þess samnings sem við skrifuðum undir á sínum tíma við Evrópusambandið og heitir samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið. Auðvitað erum við með lagasetningarvald og allt það, það er enginn að efast um það. Eins og ég sagði áðan hefur margt gott komið í gegnum EES-samninginn. En við verðum líka að horfast í augu við gallana á honum.

Og ég vil líka segja, af því að hæstv. forsrh. nefnir lagasetningarvaldið, að þegar kemur að gerðum Evrópusambandsins sem við þurfum að samþykkja, þá vitum við það öll hér inni að við höfum ekki neitt um það að segja að gera einhverjar breytingar á því. Og þó að menn óttist það, eins og hv. þm. Halldór Blöndal sagði áðan, að við hefðum engin áhrif innan ESB sem lítil þjóð þá er það þó eigi að síður þannig að við hefðum a.m.k. einhver áhrif á undirbúning gerðanna en það höfum við ekki í þessu núverandi ástandi. Þó að við séum sennilega öll sammála um það að EES-samningurinn hafi fært okkur margt gott og sé að mörgu leyti ágætur grundvöllur, þá verðum við líka að horfast í augu við gallana sem honum fylgja.