Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 12:47:44 (7767)

2002-04-18 12:47:44# 127. lþ. 122.9 fundur 315. mál: #A virðisaukaskattur# (viðauki, niðurfelling gjalda, endurgreiðslur o.fl.) frv. 64/2002, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[12:47]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Það þarf meira til að raska geðró þó að hér verði nokkur orðaskipti um Evrópudekur Samfylkingarinnar.

Varðandi stefnu Vinstri grænna þá er hún alveg ljós. Við viljum hafa sjálfstæða stöðu til að semja við þjóðir um gagnkvæm viðskipti, hvort sem þær þjóðir eru í Evrópu, Asíu eða Ameríku, Suður-Ameríku eða Ástralíu. Við viljum hafa sjálfstæði til að semja við þjóðir hvarvetna um hagsmunamál okkar. Göngum við í Evrópusambandið þá framseljum við þennan rétt og verðum að gangast undir samninga Evrópusambandsins að stórum hluta. Þetta er okkur nú alveg fullkomlega ljóst.

Hitt er aftur á móti vandamál sem ég reifaði hér í ræðu minni, þ.e. að við skyldum hér á Alþingi stöðugt verða að fara í gegnum innantökur Samfylkingarinnar í Evrópuumræðunni. Væri ástæða til þess að Samfylkingin geti bara lokið þessari umræðu utan þings og komið svo með málið fyrir þingið. Ég hafði orð á því en skoðun okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði í utanríkismálum er alveg skýr í þessum efnum.