Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 12:51:46 (7769)

2002-04-18 12:51:46# 127. lþ. 122.9 fundur 315. mál: #A virðisaukaskattur# (viðauki, niðurfelling gjalda, endurgreiðslur o.fl.) frv. 64/2002, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[12:51]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna orðum og áherslum hæstv. forsrh. hér um stöðu Íslands, rétt okkar til lagasetningar og að í raun sé sá réttur óskertur nema að því sem lýtur að aðlögun okkar að alþjóðlegum samningum.

Hins vegar vil ég leyfa mér að benda á að því er æ ofan í æ beitt sem rökum fyrir því að við tökum hér upp þessar og hinar tilskipanirnar í formi reglugerða eða laga að þar verðum við að lúta ákvörðunum Evrópusambandsins. Þessu er beitt sem rökum. Samkvæmt orðum hæstv. forsrh. eru þau rök fullkomlega röng eða á misskilningi byggð. Við nálgumst þetta á sjálfstæðan hátt þó að við reynum í sjálfu sér, ef okkur finnst það skynsamlegt, að laga löggjöf okkar að því sem er hjá öðrum þjóðum. Við förum þá að þeim samningum sem við skuldbindum okkur til að fylgja.

Mér finnst hæstv. forsrh. hafa allt aðra sýn á þessi mál en marka má af því hvernig við upplifum rökstuðning fyrir lögum og tilskipunum sem borin eru fram hér á Alþingi.

Ég vil líka leyfa mér að vitna til þess sem ég minnist að hafa heyrt haft eftir hæstv. utannrh., þ.e. að hann telji vafasamt að EES-samningurinn standist stjórnarskrána einmitt hvað þessi lagasetningarákvæði varðar. Þannig er afar mikilvægt að okkur sé alveg fyllilega ljós staða okkar í þessu máli. Þegar við erum að gera ákveðinn hlut þá vitum við nákvæmlega á hvaða forsendum það er, hvort sem er lagasetning eða gildistaka tilskipana, að lög og reglur gangi út frá íslenskum forsendum. Það er mjög miklvægt að það sé á hreinu. Ég er alveg sammála hæstv. forsrh. um að við sækjum ekki gull í að ganga í Evrópusambandið.