Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 12:56:39 (7772)

2002-04-18 12:56:39# 127. lþ. 122.9 fundur 315. mál: #A virðisaukaskattur# (viðauki, niðurfelling gjalda, endurgreiðslur o.fl.) frv. 64/2002, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[12:56]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Varðandi þetta með fullveldið þá er alveg rétt að margir hafa haldið því fram að við höfum skert fullveldi okkar þegar við undirgengumst EES-samninginn. Spurningin er: Hvað er þá til ráða?

Við þekkjum það úr heimi alkóhólismans að menn sem hafa fengið sér einn sjúss telja allra meina bót að fá sér annan og jafnvel tæma úr flöskunni, eins og tillögur Samfylkingarinnar ganga út á, að undirgangast í einu og öllu skrifræði og skrifstofuveldi Evrópusambandsins. Í þessari umræðu hefur mér oft fundist skorta á skilning á ákvarðanatöku innan Evrópusambandsins.

Menn halda því fram að með því að ganga í það bandalag séum við farin að hafa áhrif. Hvernig eru ákvarðanir teknar í Evrópusambandinu? Þar er ráðandi framkvæmdanefnd. Að baki henni er ráðherraráð. Það verða 237 ráðherrar í því ráði. Hve marga hafa smæstu þjóðirnar? Tvo. Það eru innan við 2% áhrif þar. Til hliðar er svo Evrópuþingið. Þar sitja 626 fulltrúar. Þar koma smæstu ríkin til með að hafa um hálfs prósent áhrif.

Menn halda því fram að með því að ganga í Evrópusambandið muni Íslendingar ráða nokkru um örlög sín. Ég held ekki. Það sem menn eru tilbúnir að afsala sér er fullveldi þjóðarinnar til að gera sjálfstæða viðskiptasamninga við önnur ríki, við Japan, Bandaríkin, Suður-Ameríku og önnur ríki í heiminum. Við værum að afsala okkur þeim rétti. Hafa menn reiknað það út, sem vilja setja þetta allt niður í krónur og aura, hvaða áhrif þetta hefði á vöruverð sem tryggt er í viðskiptasamningum við þessi ríki? Hafa menn skoðað hvað það þýðir í krónum og aurum þegar við undirgöngumst það að fjármagna skrifræðisbákn Evópusambandsins? Menn eru sammála um að það muni skipta mörgum milljörðum, mörg þúsund milljónum króna sem við yrðum að greiða í þá hít, umfram það sem út úr henni kæmi. Þetta eru staðreyndir.

En ég gleymdi einu. Ég hef gleymt einu þegar ég hef vikið að þessu áður, þ.e. valdi fjölþjóðafjármagnsins. Það var m.a. verið að upplýsa um það vald innan Evrópusambandsins í ágætri grein í breska stórblaðinu Guardian í gær. Þar kemur fram að Evrópusambandið beitir nú öllum ráðum til að ganga erinda fjölþjóðafyrirtækja gagnvart samningum um GATT, sem svo eru nefndir, sem unnið er að á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnuna WTO. Það er verið að upplýsa það núna að Evrópusambandið hefur á leynilegan hátt áhrif í þá veru að almannaþjónusta um heim allan, ekki bara innan Evrópusambandsins, verði einkavædd. Það er nokkuð sem ég held að okkur sé hollt að hugleiða, þegar við veltum vöngum yfir þeim áhrifum sem Íslendingar geti haft innan þessa sambands.

[13:00]

Við höfum verið að ræða málefni á borð við raforkugeirann, hvernig eigi að skipuleggja hann. Þar hafa menn vísað til þess sem er að gerast, annars vegar í Evrópu og hins vegar í Bandaríkjunum. Í Bandaríkjunum er raforkugeirinn meira og minna einkavæddur. Það er þó á valdi hvers einstaks ríkis, í sumum tilvikum borgar, hvaða háttur er hafður á í því efni. Í Los Angeles er raforkugeirinn undir handarjaðri borgarinnar, borgarbúa. Í Kaliforníu var þetta að öðru leyti einkavætt eins og Enron-dæmið minnir okkur á.

(Forseti (ÍGP): Forseti vill spyrja hv. þingmann hvort hann eigi eftir langan tíma af ræðu sinni vegna þess að gert er ráð fyrir fundarhléi klukkan eitt.)

Talsvert, þannig að ég mundi kjósa að gera hlé á ræðu minni en fá að ljúka þeirri setningu sem gengur út á að minna menn á muninn sem annars vegar er í þessu musteri kapítalismans, Bandaríkjunum, og hins vegar í Evrópusambandinu þegar kemur að miðstýrðu reglugerðarvaldi. Í Evrópusambandinu er öllum gert að fara að miðstýrðum ákvörðunum, gagnstætt því sem gerist í Bandaríkjunum. Við verðum að hlíta reglum sem eru settar í Brussel og taka til Orkubús Vestfjarða ekkert síður en raforkuframleiðslunnar í Frankfurt. Og það er þessi miðstýringarárátta, að skipa öllu lífi manna með reglustiku út í hörgul, sem veldur því að við tryggjum ekki fullveldi okkar með inngöngu í Evrópusambandið.

Ég mun ljúka máli mínu þegar við komum aftur saman til fundar að loknu hádegisverðarhléi.