Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 13:46:12 (7775)

2002-04-18 13:46:12# 127. lþ. 122.9 fundur 315. mál: #A virðisaukaskattur# (viðauki, niðurfelling gjalda, endurgreiðslur o.fl.) frv. 64/2002, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[13:46]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson segir að smáríkin innan Evrópusambandsins hafi náð miklum árangri. Þau hafi bundist bandalagsböndum þar innan og krækt sig saman eins og hann orðaði það fyrr í dag og náð miklum árangri. Til hvaða þjóða er verið að vísa og í hverju liggur sá árangur? Og hvernig stendur á því að þær þjóðir láta það þá viðgangast að Evrópusambandinu er beitt í þágu fjölþjóðlegs fjármagns eins og dæmin sanna?

Síðan um þau dapurlegu örlög okkar og fullveldisins sem hv. þm. vísar til. Það er alveg rétt eins og oft hefur verið bent á að um 80% af Evrópulöggjöfinni ratar inn í íslenska löggjöf. En að uppistöðu til eru þetta reglur sem lúta að margvíslegri stöðlun til að greiða götu viðskipta og samstarfs, nokkuð sem allir mundu skrifa upp á og allir skrifa upp á og enginn ágreiningur ríkir um. Þetta eru reglur sem eru smíðaðar af embættismönnum og eiga rót í stofnanakerfi þjóðanna og um þetta er enginn ágreiningur. Þegar kemur hins vegar að hinum stóru pólitísku álitamálum um hvernig eigi að skipuleggja raforkugeirann, fjarskiptakerfið og þar fram eftir götunum, þar eigum við að leita annarra leiða en við höfum gert, leita undanþágu í ríkari mæli en við höfum reynt að gera. En að telja sér trú um að við mundum fá því ráðið hver stefnumótun er á þessu sviði, það held ég sé mikill misskilningur.