Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 14:17:00 (7784)

2002-04-18 14:17:00# 127. lþ. 122.9 fundur 315. mál: #A virðisaukaskattur# (viðauki, niðurfelling gjalda, endurgreiðslur o.fl.) frv. 64/2002, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[14:17]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 1. þm. Norðurl. e. fyrir það að draga til baka fyrri yfirlýsingar sínar í þá veru að Alþýðuflokkurinn hefði lagst í víking gegn stofnun Hæstaréttar eins og hann fullyrti hér í fyrri ræðu sinni í morgun. Ég vil enn fremur þakka honum fyrir það að hafa dregið í land með fyrri yfirlýsingar um að Alþýðuflokkurinn hefði hér lagst í víking gegn stofnun lýðveldisins á Þingvöllum 1944.

Það er auðvitað himinn og haf á milli þess hvort Alþýðuflokkurinn lagðist á fyrstu árum í starfsemi sinnar gegn stofnun Hæstaréttar ellegar hvort grein hafi verið birt í Alþýðublaðinu á þessum tíma, þar sem einhverjir hafa lagt þar eitthvað til málanna.

Ég þakka honum fyrir að hafa afsakað fyrri yfirlýsingar í þessa veru. Einnig veit ég, vegna orða hans hér og nú varðandi lýðveldisstofnun á Þingvöllum 1944, að þau skoðanaskipti sem áttu sér stað í aðdraganda þeirrar baráttu, hraðskilnaðarsinna og lögskilnaðarsinna, hafði ekkert með það að gera hvort Íslendingar vildu sjálfstæði eður ei, heldur eingöngu hver tímasetningin ætti að vera, hvort aðskilnaðurinn yrði á þeim tíma er vinaþjóð okkar Danmörk væri hersetin af nasistum ellegar hvort bíða ætti þess að Danir fengju frelsi og við samhliða.