Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 14:19:49 (7786)

2002-04-18 14:19:49# 127. lþ. 122.9 fundur 315. mál: #A virðisaukaskattur# (viðauki, niðurfelling gjalda, endurgreiðslur o.fl.) frv. 64/2002, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[14:19]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta er náttúrlega að verða eins og eins konar sögutími og hefur kannski ekki mikið gildi í umræðunni sem hér fer fram og mun fara fram á næstu mánuðum og missirum, þ.e. um Ísland í samfélagi þjóðanna. Það er þó mikilvægt að halda málunum til haga þannig að það sem sagt er úr þessum ræðustóli sé rétt. Eins og ég sagði áðan þá er hér eingöngu um að ræða reykinn af réttunum. Hér er reynt að skapa tengsl í sögu íslensku þjóðarinnar, hinni pólitísku sögu, og reynt að gera okkur jafnaðarmenn tortryggilega í þeirri umræðu sem fram fer nú um stundir og óhjákvæmileg er, um stöðu Íslands í Evrópu. Hér er látið í veðri vaka að það sé ekki nýtt af nálinni að jafnaðarmenn hafi sýnt litla þjóðhollustu þegar kemur að stöðu Íslands í þeim efnum.

Staðreynd er auðvitað sú að sagan hefur sýnt og sannað að í einu og öllu höfum við jafnaðarmenn haft rétt fyrri okkur þegar að þessum málum hefur komið. Í einu og öllu hefur Alþingi og þeir flokkar sem setið hafa á því um áratugi, fallist á sjónarmið okkar jafnaðarmanna fyrr og síðar þegar kemur að því að skilgreina stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna.

Ég nefndi hér þetta litla dæmi um EES. Það er hins vegar mjög táknrænt og segir okkur margt um það. Hv. þm. Halldór Blöndal kom til byggða í því máli eins og allir aðrir þingmenn Sjálfstfl. og samþykkti góðu heilli EES-samninginn forðum daga þótt hann hefði í aðdraganda þeirrar kosningabaráttu látið sem hann hallaðist að öðrum aðferðum, tvíhliða samningi.

Herra forseti. Sagan er jú ólygnust. Kannski er okkur hollt að fara í gegnum hana hér annað slagið til að átta okkur á því hvernig okkur hefur vegnað, okkur Íslendingum, og af hvaða sökum. Við jafnaðarmenn berum höfuði hátt þegar sú saga er skoðuð á hlutlægan hátt.